139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[15:45]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Johnsen kærlega fyrir ræðu hans. Hún var kjarnyrt að venju og á góðri íslensku. Ég þakka honum jafnframt varnir fyrir hönd Framsóknarflokksins því að svo virðist vera sem Samfylkingin sé komin með stefnu flokksins á heilann í þessu máli eins og öðrum. Þær eru orðnar margar ræðurnar sem við þingmenn höfum setið undir þar sem þingmenn Samfylkingarinnar þylja upp stefnuskrá Framsóknarflokksins.

Mig langar að spyrja þingmanninn, af því að hann kemur úr kjördæmi sem er mikil auðlindakista, mikið um sjávarútveg og þá sérstaklega í Vestmannaeyjum þar sem Eyjarnar lifa nánast á fiskveiðum, hvað hann sjái fyrir sér með það frumvarp sem nú er til umræðu og á að taka gildi þegar það hefur fengið þinglega meðferð. En um leið og stóra frumvarpið tekur gildi fellur það sem við ræðum nú úr gildi. Mig langar að spyrja þingmanninn um 32. gr. stóra frumvarpsins sem tekur við af þessu frumvarpi. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Lög þessi öðlast þegar gildi […] Lög þessu skulu hafa gildi í 23 ár.“

Það veit enginn hvað tekur við. Í umfjöllun um lagagreinina kemur fram að greinin þarfnist ekki skýringa. Telur þingmaðurinn að það tengist eitthvað Evrópusambandsumsókninni að verið sé að setja þennan lagaramma um sjávarútveg í 23 ár, til 2034, og atvinnugreinin verði síðan skilin eftir í miklu uppnámi þegar því lýkur?