139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[15:53]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Andsvar mitt við hv. þm. Árna Johnsen var örlítill upptaktur að ræðu minni um þetta mál því að minna frumvarpið verður ekki lesið án stærra frumvarpsins þó að það sé ekki komið á dagskrá þingsins. Með þessu frumvarpi eru lagðar til meiri háttar breytingar á stjórn fiskveiða í átta atriðum sem ég kem til með að fara yfir.

Það sjá það allir sem vilja, án þess að þess sé getið í frumvarpinu, að þessi frumvörp eru lögð fram í anda 20/20 Evrópureglnanna þar sem lagt er til að þetta frumvarp gildi einungis í 23 ár. Það veit enginn hvað tekur við eftir 23 ár, árið 2034. Í 32. gr. hins stærra frumvarps stendur, með leyfi forseta:

„Lög þessi öðlast þegar gildi, en jafnframt falla úr gildi lög nr. 116/2006, með síðari breytingum. Lög þessu skulu hafa gildi í 23 ár frá gildistöku þeirra.“

Um þessa grein stendur á bls. 34, með leyfi forseta: „Greinin þarfnast ekki skýringa.“ Meira er ekki útskýrt í frumvarpinu og augljóst hvað skal taka við: Evrópusambandið tekur við fiskveiðistjórn Íslendinga í síðasta lagi árið 2034, eftir 23 ár, því að hér er raunverulega verið að setja sólarlagsákvæði og á þessum tíma á að vera búið að aðlaga íslenskan sjávarútveg að þeim evrópska eða færa Evrópusambandinu, skulum við heldur segja, fiskveiðiauðlind þjóðarinnar. Þetta er alvarlegt, herra forseti. Svona standa málin.

Við skulum ekki gleyma því að heildarþjóðarafli Íslendinga er 40% af heildarafla Evrópusambandsins þannig að það er eftir miklu að slægjast, sérstaklega þegar maður skoðar gildissvið laganna þar sem búið er að skilgreina nytjastofna upp á nýtt. Þeir eru skilgreindir svo, með leyfi forseta:

„Til nytjastofna samkvæmt lögum þessum teljast sjávardýr, svo og sjávargróður, sem nytjuð eru og kunna að verða nytjuð í íslenskri fiskveiðilandhelgi og sérlög gilda ekki um.“ — Þetta eru þær auðlindir sem eru á landgrunninu og fyrir utan þar sem landi sleppir.

Svo segir einnig í 2. mgr. 2. gr.:

„Til fiskveiðilandhelgi Íslands telst hafsvæðið frá fjöruborði að ytri mörkum efnahagslögsögu Íslands eins og hún er skilgreind í lögum nr. 41 1. júní 1979, um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn.“

Hér liggur langtum meira undir en bara stjórn fiskveiða og fiskveiðar eins og þær eru í dag. Þarna er verið að setja alla nytjastofna, þ.e. sjávargróður, prótín og aðrar sjávarauðlindir.

Vonandi eru flestir landsmenn sammála um að fiskveiðiauðlindin skuli vera eign Íslendinga. Lögfræðisérfræðingar hafa bent á að orðið „þjóðareign“ sé ekki til samkvæmt lögum en það er sett í þessi lög og því ekki breytt. Í 1. gr. stendur að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu auðlind í óskoraðri þjóðareign. Þjóðareign er ekki til í lögum og því erfitt að útskýra hvað það þýðir. Getur þjóðareign verið Íslendingur sem er búsettur erlendis eða erlendir aðilar búsettir hér á landi? Hvað er þjóðareign? Því er ekki svarað í frumvarpinu.

Helstu breytingarnar eru þær að mikið vald er fært til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Það er reglugerðafarganið sem við könnumst við úr frumvörpunum sem hafa komið inn í þingið eftir að aðildarumsóknin var lögð inn. Það er verið að regluvæða lagasafnið í stórum stíl. Það kemur ekki frumvarp hingað inn án þess að reglugerðarákvæði sé í því. Við skulum átta okkur á að það þýðir að löggjafinn sjálfur gefur lagasetningarvaldið frá sér sem ég geld mikinn varhuga við. Þingmenn eru kosnir á þing af þjóðinni til að fara með lagasetningarvald. Þeir eru ekki kosnir til að framselja það vald til embættismanna í ráðuneytunum því að það eru fyrst og fremst embættismennirnir sem semja reglugerðirnar þó að ráðherrarnir skrifi sjálfir undir þær. Ég vara við því. En þarna birtist aftur kratavæðing lagasafnsins, eins og ég kalla þetta, vegna þess að meginuppistaða evrópskra laga hjá Evrópusambandinu eru reglugerðartilskipanir eða reglugerðir og það eru embættismenn þessara ríkja sem raunverulega semja þær en ekki þjóðkjörnir menn.

Það er verið að leggjast í breytingu hvað varðar aflaheimildir. Þær skulu dregnar frá heildaraflamarki áður en kemur til almennrar úthlutunar til fiskiflotans. Í tengslum við sérstaka úthlutun aflaheimilda til minni byggðarlaga er lagt til að sveitarstjórnum verði gefinn kostur á að velja milli úthlutunarreglna ráðuneytisins. Þarna er verið að færa það vald aftur heim til sveitarstjórna. Ég hef fengið upplýsingar um að sveitarstjórnarmönnum finnist óþægilegt að þurfa að ráðstafa þessu sjálfir því að á minni stöðum býður það upp á togstreitu og oft og tíðum spillingu sem menn ætluðu að uppræta hér á landi eftir hrunið. Það er verið að setja skorður við tilfærslum milli fisktegunda sem einstaka útgerð er heimilt innan fiskveiðiársins þannig að það er verið að þrengja að útgerðum þar og lengi mætti telja. Hér er ákvæði um skötuselinn o.fl. Það er verið að setja á hærra veiðigjald. Ég kýs að kalla það auðlindagjald því að þetta er auðlind og sjávarútvegurinn hefur skilað miklu auðlindagjaldi til þjóðarinnar. Það er harla lítið tala um það hjá Samfylkingunni því að svo virðist sem Samfylkingin hafi ekki skilning á mikilvægustu atvinnugrein okkar sem heldur Íslendingum uppi nú sem endranær. Verið er að setja á veiðigjald og það hækkað úr 9,5%, ef reiknað er eftir EBITDA fyrirtækjanna, upp í 16,2% eða um 6,7 prósentustig sem samsvarar liðlega 70% hækkun á gjaldinu. Auðvitað á sjávarútvegurinn að skila auðlindagjaldi til þjóðarinnar, ég er ekki að gagnrýna það, en fyrr má nú vera þegar farið er af stað með einhliða hækkunarákvæði upp á 70%. Það er kannski fullmikið í lagt en áætlað er að veiðigjaldið verði um 2 milljarðar miðað við tekjur af veiðigjaldi á yfirstandandi fiskveiðiári og verði samtals 4,8 milljarðar í stað tæpra 3 milljarða. Þarna er verið að auka vel í.

Það sem manni blöskrar helst er að í frumvarpinu er lagt til að stjórnarskráin verði brotin með því að dreifa auðlindagjaldinu á landsbyggðina frekar en höfuðborgarsvæðið. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skilgreinir auðlindina upp á nýtt þannig að auðlindin eigi að tilheyra landsbyggðinni en ekki höfuðborgarsvæðinu eða landsmönnum öllum. Það er eftirtektarvert og harðlega gagnrýnt í frumvarpinu af fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytis. Samt erum við ekki komin með nein drög að breytingartillögum um að færa þetta til baka eins og það var. Þetta er skýrt brot á jafnræðisreglu.

Hér er t.d. vísað í fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins í sambandi við hveri og orkuvinnslu og hvort ekki eigi að ráðstafa því gjaldi sem ríkið innheimtir þar af til sveitarfélaganna á þeim svæðum. Upp er komin sú einkennilega staða að frumvarpinu er ætlað að skapa ójafnvægi milli byggða landsins. Hvers á höfuðborgarsvæðið að gjalda vegna þess arfavitlausa frumvarps sem nú liggur fyrir?

Fiskveiðistjórnarkerfið verður ekki rætt öðruvísi en tala um allar auðlindir okkar. Ég hef þegar lagt fram þingsályktunartillögu þar sem kveðið er á um að Íslendingar og við, löggjafinn, setjum lög þar sem allar okkar náttúruauðlindir verði skilgreindar, hverjar þær eru nákvæmlega tæmandi taldar og hvernig skuli ráðstafa þeim. Við skulum átta okkur á því að ef við, löggjafinn, gerum það ekki, verjum okkur ekki og þjóðina þá renna þær óskorðaðar inn í Evrópusambandið samþykki þjóðin Evrópusambandsumsóknina. Það er alltaf sagt sem svo að Evrópusambandið ásælist ekki auðlindir okkar en það gerir það svo sannarlega vegna þess að það er í miklu klúðri heima fyrir og þarf að komast yfir norðurslóðir. Ísland er strandríki og í raun eina von Evrópusambandsins til að lifa hreinlega af. Ég segi það hreint út eins og það er. Evrópusambandið hugsar þetta til fleiri ára en kannski við Íslendingar og það sannast í frumvarpinu þar sem sannarlega er tekið mið af þessari 20/20 áætlun sambandsins um stækkun.

Ég minni líka á að árið 2014 stendur til að breyta Lissabon-sáttmálanum, það á að Þýskalands-væða hann. Þýskaland verður langöflugasta ríkið innan Evrópusambandsins á kostnað smáþjóðanna. Íslendingar eru því að leggja inn, eða Samfylkingin, umsókn að hinu gamla Evrópusambandi, sér í lagi ef væntingar hæstv. utanríkisráðherra standast, að Íslendingar megi kjósa um samninginn 2013. Þá verður kosið um aðild að Evrópusambandinu hinu eldra því að það kemur til með að breytast eftir 2014 með þessari Þýskalands-væðingu og verður í raun allt öðruvísi Evrópusamband. Ég spurði um þetta á sínum tíma þegar ég hafði tækifæri til að ræða við þann aðila sem fer með sjávarútvegskaflann í umsóknarferlinu og hann vildi ekki kannast við að það mundi breytast 2014 en nú hefur það komið á daginn.

Ef við Íslendingar stöndum ekki vörð um auðlindir okkar sjálf gerir það enginn fyrir okkur. Ég tel að við höfum gott forskot á norðurslóðum. Norðurpóll er að opnast, við eigum gnótt af fiski í sjónum og það er akkúrat það sem heimurinn þarfnast. Það fellur til mikið prótín hér á landi og í raun ættum við ekki að henda einu einasta roði eða fiskbeini heldur setja það allt í vinnslu. Það er það sem vanþróuðu löndin þarfnast og væri nær að senda út matvæli í prótínformi en senda dýrmætan gjaldeyri sem þjóðin á ekki í þróunarstarf sem fer svo meira og minna fyrir rest í mútugreiðslur til spilltra embættismanna sem taka við greiðslunni, sem dæmi. Svona fyrirtæki er fyrir norðan. Þar er verið að vinna að þessu og vonandi verður mikil framþróun í því á næstu árum hér á landi því að nú verðum við að fara að hugsa upp á nýtt.

Herra forseti. Þau frumvörp sem búið er að leggja fram eru mikil aðför að íslenskum sjávarútvegi. Það er í takt við þessa verklausu ríkisstjórn að þau mál sem hún kemur með eru sett fram í ófriði. Ég minni á að mikil sátt hafði náðst milli allra hagsmunaaðila í sjávarútvegsmálum. Ég kallaði það á sínum tíma þjóðarsátt, svo ánægð var ég með þau úrslit. Þegar upp er staðið hefur kvótinn orðið öll einkenni einkaréttar eftir dómum Hæstaréttar. Hann t.d. erfist, honum er skipt í hjónaskilnuðum, það er hægt að veðsetja hann, kaupa hann og selja hann þannig að það má alveg færa fyrir því rök að kvótinn sé eign þeirra sem fara með hann núna. Útgerðarmenn gáfu þennan rétt eftir í því samningaferli sem fór fram og myndaðist mikil þjóðarsátt varðandi nýtingarréttinn á auðlindinni til framtíðar.

Það hentaði ekki hæstv. forsætisráðherra að hafa frið í kringum sig. Hæstv. ráðherrar láta ekki svo lítið að vera í þinghúsinu meðan þetta mikilvæga mál er rætt en það er ekkert nýtt heldur. Hæstv. forsætisráðherra vill hafa ófrið og stuðlar sjálf að ófriði og vill hafa allt í háalofti í kringum sig. Það eru skrýtnir stjórnarhættir, herra forseti. Þjóðin er löngu hætt að skilja hvernig á þessu stendur og ég held að ríkisstjórnin ætti að íhuga það alvarlega að segja af sér og þá sérstaklega leiðtogar flokkanna, hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon og hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir.