139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:08]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að þakka hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur fyrir fína ræðu. Það eru tveir hlutir sem mig langar að spyrja hv. þingmann um. Það sem hún sagði um hið aukna vald sem er fært til við úthlutun á byggðakvótanum vakti mikla athygli mína, í 10. gr. gömlu laganna er sagt að það eigi að gera þetta til stuðnings byggðarlögum í samráði við Byggðastofnun. Það stakk mig dálítið þegar ég sá að í nýja frumvarpinu var búið að taka Byggðastofnun út. Mér finnst þetta mjög sérkennilegt vegna þess að ég þykist vita að Byggðastofnun hafi mikla þekkingu á stöðu byggðanna og hugsunin var að nýta hana. Ég er að velta fyrir mér og hef ekki fengið skýr svör við því hvers vegna þetta er gert. Maður sér hér aðför sumra hv. þingmanna og hæstv. ráðherra að Byggðastofnun og veltir fyrir sér hvort þetta gæti verið einn liður í því að reyna að tala þá stofnun niður eða gera lítið úr störfum hennar.

Hv. þingmaður vitnaði hér í að það væri tekið mið af 20/20-sóknaráætluninni og maður spyr þá hvort þetta væri hugsanlega bara aðlögun að Evrópusambandinu. Ég hef ekki lesið og kynnt mér nýjustu drög Evrópusambandsins að nýrri fiskveiðilöggjöf en maður sem er búinn að kynna sér það mjög rækilega sagði mér að þessi frumvörp sem við erum að ræða hér um séu nánast spegilmyndin af því, það sé í raun og veru ofboðslega líkt, uppbyggingin á því, hvernig þetta er hugsað. Því vil ég spyrja hv. þingmann hvort hún hafi kynnt sér drögin að nýrri sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins. Eins og hún kom inn á í ræðu sinni verður þetta hugsanlega til þess að þetta smellpassar allt saman eftir einhver ár.