139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:14]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Að sjálfsögðu er ég algjörlega á móti því valdaframsali sem felst í hverju einasta frumvarpi sem lagt er fram. Það er verið að kratavæða stjórnsýsluna og Alþingi með því að úthýsa þessu úr þessum sal. Það er ábyrgðarhluti hjá ríkisstjórn að fara fram með svona frumvörp. Við erum hér bara 63 þingmenn að setja einhverja rammalöggjöf, en nánari útfærsla á öllum lögum á að eiga sér stað í ráðuneytunum. Þetta er háalvarlegt mál og ég segi það einu sinni enn að það er eins og þessi ríkisstjórn ætli sér að sitja hér næstu 120 árin. (Gripið fram í: Bara stutt.) Það er eins og hún átti sig ekki á því að bráðlega verða kosningar og þá verða þessir flokkar ekki kosnir með þann meiri hluta sem þeir eru með núna vegna þess hvernig þeir eru búnir að haga sér og koma fram við þjóðina. (Forseti hringir.) Og þá eru það einhverjir aðrir flokkar sem setjast í ráðherrastólana og geta hagað málunum eins og þeir vilja.