139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:22]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Eins og fyrri ræðumenn vil ég í andsvörum þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Ég deili í mörgum atriðum þeim sjónarmiðum sem hún talaði hér fyrir.

Hv. þingmaður vakti sérstaka athygli á því að þátttaka þingmanna Vinstri grænna hefur verið óvenjulítil í svo stóru máli sem hér um ræðir. Það vekur nokkra furðu og raunar eru þingmenn Samfylkingarinnar örlítið að bæta sér inn á mælendaskrá eftir miklar brýningar þingmanna á undanförnum dögum.

Afstaða Vinstri grænna til þessa máls kemur í sjálfu sér ekki á óvart, síst í ljósi umræðunnar sem átti sér stað undir liðnum um fundarstjórn forseta áðan þar sem formaður Sjálfstæðisflokksins óskaði eftir utandagskrárumræðu til að Vinstri hreyfingunni – grænu framboði gefist færi á að upplýsa alþjóð um stefnu sína í utanríkismálum. Sá flokkur virðist vera að yfirgefa prinsipp sín alveg lon og don í ýmsum málum. Við getum nefnt NATO, Evrópusambandið, Icesave og einkavæðinguna, og ég álít satt að segja að með þeim frumvörpum sem hæstv. sjávarútvegsráðherra leggur hér fram hafi Vinstri hreyfingunni – grænu framboði komið til hugar að segja sig úr lögum við ákveðna atvinnugrein í landinu, slík er ósamstaðan innan flokksins.

Ég vil inna hv. þingmann aðeins nánar eftir því með hvaða hætti hún sjái aðkomu Framsóknarflokksins. Margir horfa til hans í þessum efnum, svo furðulegt sem það nú er að mínu mati, hér í þessum umræðum. Hvernig sér hv. þingmaður Framsóknarflokkinn leggja inn í það púkk til að koma þessum málum í einhvern annan farveg en hér um ræðir? Ég ætla að fylgja þessu eftir (Forseti hringir.) í síðara andsvari, það var kallað eftir þessu af stjórnarþingmanni áðan í umræðunni þannig að ég vil heyra skoðanir hv. þingmanns á þessu.