139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:30]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það vekur athygli að enginn ráðherra skuli vera í salnum í dag við þessa umræðu, ekki einu sinni sjávarútvegsráðherra sem var þó þaulsætinn hér í gær (Gripið fram í: Nokkrir verða að vera …) og þrátt fyrir að við höfum ítrekað kallað eftir því, þingmenn sem vorum hér í umræðunum í gær og fyrradag, að við fengjum forsætisráðherra og aðra ráðherra til að vera á staðnum sem og þingmenn stjórnarinnar. Það hefur ekkert verið orðið við því kalli okkar.

Ég vil byrja á að segja, virðulegi forseti, að mér finnst málflutningur þeirra stjórnarliða sem hér hafa farið upp ekki merkilegur. Helst hefur það verið á þeim nótum að reyna að halda því fram að Sjálfstæðisflokkurinn vilji engar breytingar gera á núverandi fiskveiðistjórnarkerfi, sem er auðvitað alrangt. Sjálfstæðisflokkurinn tók af heilindum ásamt öðrum stjórnmálaflokkum þátt í vinnu sáttanefndarinnar, hv. þm. Einar K. Guðfinnsson stýrði þar mikilvægri undirnefnd og Sjálfstæðisflokkurinn lýsti sig reiðubúinn til að taka þátt í breytingum á kerfinu í anda þess samkomulags sem þar náðist. Málsvörnin hefur verið dálítið aumleg hér og það hefur verið rætt um að það verði meðal annars að gera þessar breytingar út af mikilli skuldsetningu en svo sagði hæstv. fjármálaráðherra í ræðu sinni áðan í umræðu um endurreisn viðskiptabankanna að útflutningsgreinarnar skiluðu sér miklu betur í afborgunum á öllum skuldum. Það var ein af niðurstöðunum þar.

Sá málflutningur stenst ekki heldur, þetta ber allt að sama brunni. Það er af miklu þekkingarleysi sem fólk sem ber svo mikla ábyrgð ræðir þessi mál. Það er í raun ekki boðlegt þegar við erum að ræða um grunnatvinnuveg þjóðarinnar, um afkomu þúsunda manna, sjávarbyggða úti um allt land, að málin séu rædd af slíkri léttúð og þekkingarleysi sem oft kemur fram í málflutningi þeirra.

Við erum að reka hagkvæmasta sjávarútveg í heimi, um það er ekki deilt, það er bara niðurstaða og staðreynd. Það er út frá því sem við þurfum að skoða allar breytingar. Við hljótum að vilja gera breytingar til að gera gott kerfi betra og það er algjörlega óásættanlegt annað en að við viljum hámarka arðsemi þjóðarinnar af þeim sjávarútvegi sem við rekum í landinu. Þess vegna þarf að nálgast málin af mikilli varúð.

Hvað er það í raun og veru meðal þjóðarinnar sem veldur ósætti um það stjórnkerfi fiskveiða sem við höfum nú og höfum haft í nokkuð mörg ár? Það er framsalsákvæðið sem ríkisstjórn setti árið 1990. Þátttakendur sem sátu þá á þingi voru hæstv. ráðherrar Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir. Þau sátu þá á þingi, greiddu því atkvæði og mæltu með þeim breytingum sem þá voru gerðar. Þetta var sennilega ein veigamesta breytingin sem hefur verið gerð á kerfinu í hagræðingarátt og hefur skilað sér mjög vel en fólki sveið að það skyldi ekki verða meira eftir af því fé hjá þjóðinni sjálfri þegar þeir sem seldu sig út úr greininni fóru með mikla fjármuni út úr henni.

Síðan hafa verið gerðar margar tilraunir til að bæta kerfið í þeim sáttanefndum sem ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks settu á á síðasta áratug til að reyna að ná víðtækri sátt um það en það var allt saman afbakað um leið og það kom út.

Í sveitinni í gamla daga var mjög mikið að gera og það var mjög margt fólk á staðnum. Þannig var það í sjávarþorpunum líka en við vindum ekki ofan af því, sá tími kemur ekki til baka vegna þess að við viljum halda þeirri hagræðingu sem hefur náðst til sjávar og sveita. Reynslan af kvótakerfinu er mjög góð.

Ég hef gert að umtalsefni í þessum umræðum núna stöðu þess fólks sem hefur spilað eftir því kerfi sem meðal annars hæstv. ráðherrar áttu þátt í að koma hér á með framsalinu 1990. Þetta fólk sem hefur fjárfest í veiðiheimildum, nýtingarheimildum, hefur orðið fyrir miklum skerðingum og nú á að auka aflaheimildirnar en skilja fólk eftir með skuldirnar.

Ég skil ekki hvernig nokkrum þingmanni getur dottið í hug að koma fram við hundruð fjölskyldna úti um allt land sem byggja afkomu sína á litlum og meðalstórum fyrirtækjum sínum (Forseti hringir.) með því að sýna þeim það yfirlæti sem birtist í þessum frumvörpum og ætla að skilja þær eftir með skuldirnar en taka af þeim (Forseti hringir.) aflaheimildirnar. Þetta er fólk sem ekkert hefur gert annað en að spila eftir þeim leikreglum sem Alþingi hefur sett því.