139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:49]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að strandveiðar, hvort sem er út frá þessum nýju hugmyndum um litla báta eða bara þær strandveiðar sem stundaðar eru í dag, hafa ekki leitt til aukinnar arðsemi greinarinnar. Það liggur alveg fyrir. Miklu frekar hefur þetta leitt til mikils óhagræðis. Þetta eru, eins og allir sem hafa kynnt sér málið vita, hobbíveiðar. Fólk er í þessu í hlutastörfum og verið er að taka vinnu frá þeim sem eru á ársgrundvelli í sjómennsku og útgerð.

Skýrasta dæmið um þetta er það sem gerðist þegar strandveiðarnar fóru af stað í maí. Þorskverðið hrundi úr 370 kr. kílóið niður í 270 kr. þegar aflinn fór að berast á land. Af hverju var það? Það er af því það kom óheftur afli á land og það varð til þess að sjómenn sem eru allt árið að störfum hættu að róa, margir krókaaflamarksbátarnir. Þetta er skýrasta (Forseti hringir.) dæmið um það óhagræði sem þessu fylgir. Það er með ólíkindum að verið sé að reyna að mæla þessu bót (Forseti hringir.) og réttlæta þetta ef við ætlum að hugsa til heildarhagkvæmni greinarinnar og heildararðsemi.