139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:52]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Stórt er spurt og kannski ekki hægt að fara í þetta í svo stuttu máli. Hv. þingmaður segir að reynsla af kvótakerfinu hafi verið góð fyrir suma og sumir hafi fengið úthlutað svokölluðum gjafakvóta á sínum tíma. Við skulum ekki gleyma því að 1984, þegar kvótakerfið var sett á, hafði verið viðvarandi tap í sjávarútvegi. Það var enginn sem þá vildi leggja fjármagn í sjávarútveg, enda voru engar athugasemdir gerðar við það í samfélaginu að koma kvótanum á. Það voru helst sjómennirnir sem gerðu athugasemdir við að verið væri að skerða atvinnuréttindi þeirra, verið væri að takmarka rétt þeirra til að fara á sjó. Þetta var ekkert þannig að menn væru uppi á réttum tíma.

Það var markmiðið með kvótasetningunni að hagræða í greininni og það tókst. Árið 1990 vorum við með 2.552 fiskiskip á Íslandi. Árið 2008 eða 2009 vorum við með 1.123. Við gætum veitt þennan sama afla með 2.552 skipum, en mundi verðmætið aukast við það? Nei, það mundi dreifast á fleiri hendur og arðsemin fyrir þjóðina yrði miklu minni. Að þessu leyti er kvótakerfið mjög gott. Það hefur náð þeim markmiðum sem við settum okkur.

Hverju viljum við breyta? Sáttanefndin fór yfir það. Þar skyldi auðlindinni ráðstafað af ríkinu. Auðlindin skyldi vera þjóðareign. Þetta eru grundvallaratriði sem Sjálfstæðisflokkurinn er algerlega sammála. Það skyldi gera samninga við aðila þar sem fram kæmu ákvæði um réttindi og skyldur samningsaðila. Þar skyldi taka til tímalengd, framlengingu samninga, gjaldtöku, aðilaskipti, ráðstöfun aflahlutdeilda sem ekki eru nýttar, meðferð sjávarafla o.s.frv.

Það er útfærslan á þessum leiðum, þeirri góðu niðurstöðu sem þarna náðist, sem hefur klikkað hjá núverandi stjórnarflokkum, algerlega. Það þýðir ekki fyrir þingmenn ríkisstjórnarflokkana að reyna að halda því fram að verið sé að útfæra þetta með þeim hætti sem sáttanefndin (Forseti hringir.) horfir til, vegna þess að það eru allir hagsmunaaðilar, hvort sem það eru fulltrúar launþega eða atvinnurekenda eða stjórnmálaflokka, sem telja (Forseti hringir.) að svo sé ekki.