139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:03]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Írisi Róbertsdóttur fyrir ágæta ræðu og að varpa aðeins ljósi á sjónarmið hagsmunaaðila í greininni sem við framsóknarmenn fengum inn á þingflokksfund hjá okkur fyrst í vikunni. Það kom í ljós að allir hagsmunaaðilar, bæði launþegahreyfingarnar, Landssamband smábátaeigenda og LÍÚ, eru sammála að þessu sinni um að við bæði þessi frumvörp sé ekkert annað að gera en ýta þeim til hliðar, þau séu ekki byggð á sáttaleiðinni eins og þingmaðurinn fór einmitt yfir.

Því hefur líka verið haldið fram í umræðunni að þessi frumvörp séu þess eðlis að þau séu hvort frá sínum stjórnarflokknum, annað sé VG-frumvarpið, það sem við fjöllum um hér, og stóra frumvarpið sé samfylkingarfrumvarpið. Mig langar að biðja þingmanninn að lýsa sínu áliti á því að við ræddum það annaðhvort í gær eða fyrradag hversu líklegt væri að ná sátt. Nú vitnaði þingmaðurinn í 1. þm. Suðurk., hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, þar sem hann lýsti því að það ætti bara að fara eftir niðurstöðu sáttanefndarinnar. Í ljósi þess og kannski yfirlýsinga sumra þingmanna Samfylkingarinnar, m.a. þar sem þeir hafa ýjað að því að leið okkar framsóknarmanna sé svo ljómandi góð enda er hún miklu nær sáttaleiðinni, kannski er hún bara framlenging á þeirri vinnu sem þar var unnin, má spyrja hvort hugsanlega væri hægt að ná sátt um það. Eða hversu líklegt telur þingmaðurinn að stjórnarflokkarnir vilji í raun ná þessum frumvörpum fram í sátt? Er það virkilega þannig að annar vilji þetta frumvarp og hinn hitt og niðurstaðan verði sú að við (Forseti hringir.) stöndum hér og tölum og getum ekki annað, það náist ekki nein þróuð umræða og þar af leiðandi engin sátt? (Forseti hringir.)