139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:10]
Horfa

Íris Róbertsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég hef komið inn á áður held ég, eins og mjög margir sem talað hafa í þessari umræðu, að bæði frumvörpin séu vanbúin þó að við ræðum hér það frumvarp sem ég kýs að nefna VG-frumvarpið. Ég held að það besta í stöðunni væri að þessi frumvörp yrðu dregin til baka og byrjað á vinnunni á grunni þess sem fram kom í skýrslu þeirri sem sáttanefndin skilaði. Ég held að ég geti tekið undir það með hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni að margt sem kemur fram í skýrslu sáttanefndarinnar eigi líka samleið með ályktun framsóknarmanna um sjávarútvegsmál.

Mín persónulega skoðun er sú, ég get ekki talað fyrir heilan flokk en ég er hluti af flokki og get talað fyrir sjálfa mig, að það sé ekki hægt að bæta þetta. Þetta er þannig úr garði gert að ekki er hægt að bæta það en það er hægt að byggja á þeirri vinnu sem komin var af stað. Ég skil ekki hvers vegna ríkisstjórnin valdi þessa leið. Ég vil ekki trúa því að hæstv. ríkisstjórn Íslands vilji hafa grunnatvinnuveg þjóðarinnar í ágreiningi. Ég vil ekki trúa því, en það læðist að manni grunur (Gripið fram í.) um að það sé einmitt það sem er í gangi hér, það sé hentugra fyrir einhverja sem gefið hafa stórar yfirlýsingar að hafa þetta í ágreiningi.