139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:12]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Við höldum áfram umræðu um þetta gríðarlega mikla hagsmunamál sem tengist sjávarútveginum, mál sem við erum síður en svo sammála um. Á meðan við erum að ræða þetta í þinginu er hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ekki hér. Þetta mál sem við erum að ræða er gjarnan kallað VG-málið. Ekki síður vil ég benda á að fjármálaráðherra sem ber meðal annars ábyrgð á umsögn fjárlagaskrifstofunnar frá fjármálaráðuneytinu, sem varar eindregið við því að þessi leið verði farin varðandi veiðigjaldið af því að hún kunni að stangast á við stjórnarskrána, er ekki hér í salnum og ekki heldur forsætisráðherra sem hefur ekki setið undir einni einustu umræðu, ekki hlýtt á eina einustu ræðu í þinginu í tengslum við þetta mikilvæga mál.

Því spyr ég hæstv. forseta hvort ekki sé rétt að gera hlé núna á þingfundi þar til við fáum örugg og skýr svör um það hvenær þessir ráðherrar sem ég taldi upp ætla að vera við umræðuna (Forseti hringir.) í þinginu.