139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:21]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Málið er þeim mun sérstakara fyrir einmitt það sem hæstv. sjávarútvegsráðherra kom hér inn á, það er alveg með ólíkindum að mál skuli hafa farið í gegnum ríkisstjórnarborðið, í gegnum afgreiðslu í báðum þingflokkum ríkisstjórnarinnar með þeim fyrirvara sem fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins gerir við frumvarpið um að í því felist hugsanlega stjórnarskrárbrot. Samt afgreiða þessir þingflokkar og ríkisstjórnin þetta frumvarp frá sér. Það sýnir bara, virðulegur forseti, hvers lags handvömm er viðhöfð í þessum flokkum og hversu lítil virðing er borin fyrir (Forseti hringir.) lögum og reglum í þessu landi. Þess vegna verður …

(Forseti (ÁI): Þegar forseti ber í bjöllu ber ræðumanni að gera hlé á máli sínu. Forseti vill vekja athygli hv. þingmanns á því að hann er hér að ræða fundarstjórn forseta en ekki efnislega um málið.)

Virðulegi forseti. Ég vil bara segja að einmitt út af þessu er mjög eðlilegt að við köllum eftir viðveru fjármálaráðherra, og hæstv. forsætisráðherra vegna ummæla hennar. Hún hefur ekki verið neitt við þessa umræðu frekar en um skýrslu sem var rædd hér í dag. Maður undrast fjarveru hennar við umræður um þessi tvö mikilvægu mál.