139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:24]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. sjávarútvegsráðherra fyrir að koma í salinn og hlusta á mál mitt þar sem ég er að fara í mína seinni ræðu og hef mjög stuttan tíma. Ég ætla að beina til hans tveimur, þremur spurningum og ég veit að hann kemur í andsvar eins og hann er vanur að gera til að svara þeim spurningum sem til hans er beint.

Það er bráðabirgðaákvæði í þessu frumvarpi um aukningu á annars vegar þorski um 2.400 tonn og hins vegar ufsa um 600 tonn strax á þessu fiskveiðiári, 2010/2011. Spurningin er þessi:

Hefur hæstv. ráðherra borið þetta undir forsvarsmenn Hafrannsóknastofnunar?

Hefur hæstv. ráðherra einhverjar vísbendingar um að það sé í lagi að bæta við aflaheimildir á yfirstandandi fiskveiðiári miðað við þá niðurstöðu sem var komist að í fyrravor og úthlutunina á þessu fiskveiðiári, 2010/2011, upp á rúm 160 þús. tonn af þorski og 50 þús. tonn af ufsa? Hefur hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra rætt þetta við forsvarsmenn Hafrannsóknastofnunar?

Síðan vil ég í öðru lagi leyfa hæstv. ráðherra að bregðast við því sem var misskilningur hjá honum í gær í andsvari við mig. Ég benti honum á breytinguna á 10. gr. gildandi laga þar sem kemur fram að það eigi að úthluta byggðakvótanum til stuðnings byggðarlögum og þar er sagt að það eigi að vera í samráði við Byggðastofnun. Því verður núna breytt. Ég kannast við hug hæstv. ráðherra í garð þessarar ágætu stofnunar og þykist vita að hæstv. ráðherra telji þetta tímabundið ákvæði. Svo er ekki, ég er búinn að kynna mér það. Getur hann þá ekki tekið undir það með mér að það verði skoðað sérstaklega í meðförum hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar að setja aftur inn að úthlutunin verði í samráði við Byggðastofnun? Sú stofnun hefur að sjálfsögðu mikla þekkingu á því sem snýr að sveitarfélögum úti á landi.

Ég geri mér grein fyrir því hvað er að gerast í svokallaðri tegundatilfærslu, þar er sett að hámarki 30% í hverri tegund. Þarna er verið að bregðast við því þegar menn nota mjög stóran hluta af sumum tegundum í tegundatilfærslur. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi ekki áhyggjur af því. Þetta er yfirleitt gert í þeim tegundum sem menn hafa litlar heimildir í. Það er ekki óalgengt að menn noti þessa tegundatilfærslu í tegundum þar sem eru jafnvel nokkur hundruð kíló. Allir sjá að ef menn eiga 100 kíló eru það 300 kíló sem þeir geta notað í tegundatilfærslu. Tekur ráðherra undir það sjónarmið mitt að hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd þurfi að skoða þetta sérstaklega í meðförum nefndarinnar? Ávinningurinn af þessu ákvæði eins og hann er hugsaður í dag, að koma öllum afla í land, er þá með þessum hætti, líka í sambandi við VS-aflann sem er hin hliðin á þessu máli.

Hugmyndin á bak við þetta þriggja tonna ákvæði sem er verið að búa til í nýja strandveiðipottinum er vafasöm. Það eru 30–40 bátar, sagði hæstv. ráðherra. Fyndist hæstv. ráðherra ekki eðlilegt að ef þetta yrði svona væri algjört lágmark að við tryggðum Landhelgisgæslunni það fé sem hún þarf til að sinna eftirlitsþætti og björgunarþætti við Íslandsstrendur? Eins og staðan er í dag hjá Landhelgisgæslunni hefur hún ekki einu sinni fé til að bjarga sjómönnum núna ef þeir lenda í vandræðum eins og við þekkjum. Sú staða getur komið upp og Alþingi á að vera vel meðvitað um það að komi neyðarkall frá sjómönnum verði ekki hægt að bjarga þeim. Fjármagnið er það lítið til Landhelgisgæslunnar og komi upp þær aðstæður, sem munu koma upp hjá Landhelgisgæslunni, að bráðahætta verði hjá sjómönnum verður ekki hægt að bregðast við útkalli.

Ég tel mjög mikilvægt að fá svör hjá hæstv. ráðherra um það hvernig þetta var við undirbúning á frumvarpinu. Í fyrsta lagi er þetta með Landhelgisgæsluna, í öðru lagi hvort ráðherra hafi fengið vísbendingar eða átt einhver samtöl við Hafrannsóknastofnun um hvort að mati þeirrar stofnunar væri óhætt að bæta við fiskheimildir strax á þessu ári og síðan ekki síst með þetta ákvæði sem vitnað er í um Byggðastofnun.