139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:37]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ágæta ræðu. Mig langar að heyra álit hans á þessum úthlutunum fyrir utan aflamarkið á grundvelli þess hvort menn séu hugsanlega að rísikera þessari varúðarreglu í sambandi við 20% aflaregluna í þorskinum og þeim gæðavottunum sem við höfum náð með samþykki Alþjóðafiskveiðiráðsins og á mörkuðum. Ég sakna þess, eins og hv. þingmaður, að hæstv. ráðherra hafi ekki skýrt okkur skýrt og greinilega frá því hvernig Hafrannsóknastofnun og tengdir aðilar hafi tekið á því máli. Það er ákveðin aukning á þessu ári og er svo fyrirhuguð á næsta ári líka, þá einnig til byggðamála allveruleg aukning, og hugmyndin að taka þetta út fyrir sviga annarra úthlutana.

Þá langar mig jafnframt að heyra álit þingmannsins á þessu byggðakerfi eða kerfinu við byggðaúthlutanir sem er í frumvarpinu, að úthluta annars vegar með verulegu valdi ráðherra og hins vegar að sveitarfélögin hefðu hug á því að taka það til sín og fá 100% framsal eins og bátur með 100% framsalsheimild. Við framsóknarmenn höfum lagt til að sá hluti byggðajöfnunarinnar yrði á þann veg að úthlutað yrði á fiskvinnslur af því að þær hafa jafnframt sitt númer og hægt er að tryggja að sá afli sem kemur á land fari til vinnslunnar og verði sannarlega atvinnuskapandi í þeirri byggð. Mig langar aðeins að heyra álit þingmannsins á þeirri leið versus leið ráðherra og stjórnarliða (Forseti hringir.) í frumvarpinu.