139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:51]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Ég sagði í fyrri ræðu minni um þetta mál að hæstv. ríkisstjórn hefði glatað gullnu tækifæri til að ná sátt milli stjórnmálaflokkanna og hagsmunaaðila í sjávarútvegi fyrir nokkrum mánuðum. Þá lá fyrir samkomulag í svokallaðri sáttanefnd um það hvaða leiðir ætti að fara til að ná loksins þeirri sátt í sjávarútvegsmálum sem menn hafa stefnt að og reynt að ná árum saman. Það tókst ekki vegna þess að ríkisstjórnin ákvað að svíkja sáttina, ganga frá því samkomulagi sem gert hafi verið. Því fór sem fór.

Við sjálfstæðismenn vildum og höfum alltaf viljað sátt um íslenskan sjávarútveg. Við viljum byggja hann upp. Við skrifuðum undir sáttina en hún var svikin af hæstv. ríkisstjórn með hæstv. forsætisráðherra í broddi fylkingar.

Ég hef haft á tilfinningunni að vinstri flokkarnir og núverandi ríkisstjórn sjái sér hag í því að það séu deilur um sjávarútveginn, sjái sér pólitískt tækifæri í því að viðhalda óánægju um stjórnkerfi fiskveiða og sé reiðubúin til að fórna framtíð þessarar helstu atvinnugreinar okkar Íslendinga fyrir eigin pólitísku hagsmuni. Þetta finnst mér miður og þau frumvörp sem hér hafa verið lögð fram eru ekki til merkis um að ríkisstjórnin hafi nokkurn einasta áhuga á því að ná sátt um sjávarútvegsmál, hvorki á vettvangi stjórnmálanna né meðal hagsmunaaðila.

Hv. þm. Helgi Hjörvar hefur í þessari umræðu haft á orði að það frumvarp sem við hér ræðum hafi eitthvað með það að gera að með því komi hæstv. ríkisstjórn til móts við sjónarmið sem fram komu í áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Þetta hefur komið fram í andsvörum hv. þingmanns. Þorsteinn Pálsson, þá ritstjóri Fréttablaðsins, skrifaði ágætan leiðara í það blað þann 15. janúar 2008 og komst að þeirri niðurstöðu að verði álit meiri hluta mannréttindanefndarinnar túlkað á þann veg að breyta þurfi lögum um fiskveiðistjórn í grundvallaratriðum blasi við efnahagslegar og félagslegar þrengingar. Ég tek undir það. Hafi menn áhuga á að ræða hér um álit meiri hluta mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna bendi ég á að vilji menn túlka álit og niðurstöður nefndarinnar bókstaflega og telji þeir álitið binda hendur stjórnvalda hljóti þeir hinir sömu að fallast á að niðurstöður hennar hefðu ekki einungis í för með sér breytingar fyrir íslenska fiskveiðistjórnarkerfið heldur einnig fiskveiðistjórnarkerfi annarra ríkja sem byggja á kvótakerfi og ekki síður stjórnkerfi landbúnaðarins sem byggja að grunni til á sömu undirstöðum. Þarna má nefna fiskveiðistjórnarkerfi Nýsjálendinga, Ástrala, Alaskabúa, Evrópusambandsins o.fl.

Ég efast um að þessar þjóðir mundu sætta sig við slíka íhlutun nefndarinnar í innanríkismál sín. Hins vegar er óumdeilt að álit nefndarinnar er ekki bindandi fyrir þjóðríkin og þar af leiðandi ekki fyrir okkur Íslendinga. Ef menn ætla sér að taka mark á þessu áliti eins og gefið hefur verið í skyn að gert sé með framlagningu þessara frumvarpa eru þeir á sama tíma að segja að Íslendingar hafi undirgengist mun meira framsal á sjálfsákvörðunarrétti okkar með aðild að Sameinuðu þjóðunum.

Um þetta álit má margt segja en Þorsteinn Pálsson rifjar upp í sínum ágæta leiðara að hafi menn áhyggjur af því að núverandi fiskveiðistjórnarkerfi brjóti gegn mannréttindum borgaranna í þessu landi hefði Samfylkingin kannski átt að velta því fyrir sér hvaða augum þessi sama nefnd hefði litið það ef farin yrði fyrningarleið í sjávarútvegi. Hvað ætli mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hefði sagt við því að réttindi sem menn hefðu keypt sér dýrum dómum á frjálsum markaði hefðu verið gerðar upptæk með einu pennastriki? Ég er hræddur um að mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna sæti ekki þegjandi undir slíku ráðslagi. Nú koma menn hér upp og veifa þessu áliti.

Ég ætla að leyfa mér að halda því fram að þetta frumvarp hafi ekkert með álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna að gera og að það feli í rauninni í sér meiri aðgangshindranir en núverandi kerfi gerir. Það leiðir af ákvæðum frumvarpanna (Forseti hringir.) um bann við veðsetningu, beinni og óbeinni, í sjávarútvegi sem gerir það að verkum að nýliðum er vonlaust að kaupa sig eða keyra sig inn í þetta kerfi (Forseti hringir.) og aðgangshindranir verða meiri en í kerfinu sem nú er.