139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:56]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðuna. Þingmaðurinn ræddi töluvert um eignaupptöku og hvort hún gæti staðist mannréttindi. Við þekkjum það meðal annars úr umræðu um annað mál sem tengist löndum og landareignum, vatni o.fl., að þar hefur töluvert verið rætt um eignarréttinn og einkaréttinn í raun. Það má velta fyrir sér hvort það sé yfirleitt stefna þessarar ríkisstjórnar að virða að vettugi samninga og mér dettur þá í hug gerðir orkusamningar. Samkvæmt lögum sem að minnsta kosti annar flokkur þessarar ríkisstjórnar tók að sér að semja og koma í gegnum þingið, ef ég man rétt, er hótað eignarnámi eða ríkisvæðingu. Einhvern veginn gekk erfiðlega hjá ríkisstjórninni að láta það mál ná fram að ganga.

Getur verið að svipuð sjónarmið eigi sér stað eða séu réttmæt varðandi aflaheimildirnar, varðandi sjávarútveginn, að þegar maður hefur keypt sér eitthvað samkvæmt þeim lögum sem Alþingi hefur sett og er búinn að stunda atvinnuveginn í 30–40 ár eða hvað þetta er skapist ákveðinn réttur sem er kannski ekki óumdeildur en skapar ákveðna stöðu? Ef það er þannig mætti gefa sér að ríkisvaldið væri bótaskylt ef það gengi mjög hart fram eins og menn töldu varðandi þá orkusamninga sem voru gerðir.

Mig langar að heyra álit þingmannsins á þessu. Ég er svo með aðra spurningu í seinna andsvari.