139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[18:05]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Þegar maður les þetta frumvarp er greinilegt að eitt af markmiðunum er að fjölga í greininni. Eitt af markmiðum hæstv. sjávarútvegsráðherra er að skapa fleiri störf í greininni, auka nýliðun í greininni. Það er algjörlega ljóst að með því að fjölga útgerðum í greininni fellur minna í hlut hverrar útgerðar að meðaltali. Það er tiltölulega einfalt og óumdeilt að ef útgerðum fjölgar lækka meðaltekjur í greininni. Það stangast náttúrlega á við markmið um hagkvæmni, en ég ætla samt ekki að tala um það.

Það er algjörlega ljóst að þetta lækkar aflamöguleika útgerðanna sem þýðir að þær geta ekki staðið undir jafnmiklum fjármagnskostnaði og skuldum og áður. Afleiðingin af því að fjölga í greininni með því að opna fyrir nýliða á þann hátt sem gert er hér lækkar meðaltekjur í greininni og minnkar möguleika útgerðanna á að standa undir skuldum sínum.

Seðlabankastjóri lýsti því yfir í gær að hann hefði áhyggjur af því frumvarpi sem við erum að ræða, VG-frumvarpinu, en líka samfylkingarfrumvarpinu sem er jafnvel enn svakalegra en þetta. Af hverju skyldi hann hafa áhyggjur af því? Jú, nákvæmlega af þeim ástæðum sem ég nefndi, að möguleikar útgerðanna til að standa undir skuldum sínum minnka, sem þýðir að minni líkur eru á að þeir sem eiga kröfur á útgerðirnar fái þær borgaðar, sem þýðir að fjármálastöðugleika í landinu er ógnað. Þetta er hárrétt athugað hjá seðlabankastjóra og augljóst að afleiðingarnar af því að hleypa fleirum inn í greinina gerir hana óhagkvæma.

Það er fleira sem hangir á spýtunni. Með því að auka skattlagningu á greinina þyngist enn róðurinn fyrir útgerðina, eða við skulum tala um veiðigjald vegna þess að þetta er ekki skattur á hagnað heldur skattur sem reiknast á framlegðina í útgerðinni og framlegð er eins og allir vita reiknuð áður en tekið er tillit til fjármagnskostnaðar, afskrifta og hagnaðar. Hérna mætast tvær aðgerðir hæstv. ráðherra þar sem áhrifin verða þau sömu fyrir útgerðina, þ.e. getan til að standa undir skuldum minnkar, sem þýðir að áhættan í lánasöfnum sem snúa að sjávarútvegi eykst, sem þýðir að fjármálastöðugleika í landinu hrakar, sem þýðir að seðlabankastjóri kemur fram í fjölmiðlum og segist hafa áhyggjur af þeim frumvörpum sem hér er verið að ræða.

Allt saman er þetta augljóst þegar það er borið fram. Það þarf enga „hundalógík“, eins og við heyrðum hér í dag þegar var verið að ræða skýrslu um endurreisn bankanna, til að verja hlutina. Svona er þetta. Þetta er einföld rökleiðsla, en það minnkar aftur á móti ekki hversu alvarlegt þetta er fyrir fjármálakerfið og sjávarútveginn. (Forseti hringir.)