139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[18:15]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svar hans og einstaklega falleg orð til þess er hér stendur.

Mig langar að segja út af samræðum okkar um laun og kjör sjómanna að við erum búin að sjá að ríkisstjórnin hefur áhuga á að rýra kjörin, af sjómannaafslættinum að dæma. Síðan er ekki hægt að horfa fram hjá því að í byggðarlögum hringinn í kringum landið eru laun sjómanna upp á hlut og því tengd afurðasölu og verði á þeim verðmætum sem þeir draga í land. Við sem höfum verið í sveitarstjórn og kynnt okkur og fylgst með því hvernig útsvarsþróunin er vitum að bein fylgni er á milli þess hvað skilar sér í útsvari til lítils sveitarfélags og jafnvel þokkalega stórs og þess hvernig gefur á sjó og hvert verðmætið er fyrir sjómennina. Þetta hefur gríðarleg áhrif.