139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[18:18]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni fyrir ágætisræðu. Mig langar aðeins að heyra álit hans en ég hef spurt nokkra þingmenn Sjálfstæðisflokksins um veiðileyfagjaldið og útdeilingu þess. Ég er þá ekki endilega að lýsa því yfir að ég styðji þá hugmynd sem er í frumvarpinu, sem ég geri reyndar alls ekki, um skiptingu til sveitarfélaga, heldur höfum við framsóknarmenn lagt til á flokksþingi okkar að auðlindagjaldið renni með einum eða öðrum hætti til greinarinnar að hluta til, til rannsókna, nýsköpunar og markaðssetningar. Það má hreinlega segja að við höfum talað um að það skorti á frekari hafrannsóknir og það þurfi að styrkja Hafrannsóknastofnun og því sé eðlilegt að hluti þess sé eyrnamerktur með þeim hætti og eins til nýsköpunar í fyrirtækjunum til að stækka kökuna, og enn fremur að það renni að einhverju leyti til landshlutanna, hugsanlega til atvinnuþróunarfélaganna með einhverjum hætti en sé ekki skilgreint til sveitarfélaganna eins og hér, heldur horft til stærri hluta og einmitt til að skjóta sterkari stoðum undir frekari nýsköpun í öðrum atvinnugreinum en sjávarútvegi. Við horfum auðvitað til þess að 1991 störfuðu um 15 þús. manns í greininni en það eru kannski 6–7 þús. sem starfa beint við hana í dag og þeim mun ekki fjölga nema þá með þeim afleiðingum sem þingmaðurinn lýsti áðan í orðaskiptum við hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson. Er ekki einhver leið til þess að styrkja atvinnulífið á landsbyggðinni til að sjávarútvegurinn og eins og stundum er nefnt með landbúnaðinn sé ekki að halda uppi byggðastefnu, heldur verði landshlutarnir hver fyrir sig nægilega öflugir og er þá ekki eðlilegt að hluti af því auðlindagjaldi sem verður til á þessu svæði renni líka til svæðisins?