139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[18:25]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Í skýrslu Seðlabankans um fjármálastöðugleikann sem birt var í gær segir m.a., með leyfi forseta:

„Á undanförnum missirum hafa aðgerðir er miða að stöðugleika í þjóðarbúskapnum skilað verulegum árangri. Hagvöxtur er einnig hafinn þó að hann sé með veikara móti þegar tekið er tillit til framleiðsluslakans.“

Áfram segir, með leyfi forseta:

„Betra jafnvægi í þjóðarbúskapnum, ekki síst undirliggjandi viðskiptaafgangur, framgangur áætlunar um afgang á ríkissjóði á komandi árum og mikill gjaldeyrisforði hafa skapað skilyrði til að hefja losun hafta á gjaldeyrisútstreymi.“

Áfram er bætt við:

„Jákvæð þróun á öðrum sviðum, svo sem ný skýrsla um að skuldastaða bæði þjóðarbúsins og hins opinbera verði til lengdar vel viðráðanleg, ásamt upplýsingum um meiri endurheimtur úr þrotabúi Landsbankans en áður hafði verið gert ráð fyrir, sem ráðstafað verður til greiðslu kröfu breska fjármálaráðuneytisins og hollenska ríkisins, stuðlaði einnig að þessari niðurstöðu.“

Þetta er allt saman frekar jákvætt, ekki satt? Síðan kemur setning þar sem segir, með leyfi forseta:

„Einnig er nokkur óvissa um hvort og þá hve mikil áhrif boðaðar breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu muni hafa á fjármálakerfið.“ — Það er að segja það er óvissa um hvort það hafi áhrif og hve mikil.

Þetta stangast aðeins, finnst mér, á við ræðu þingmannsins hér áðan, hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar, sem túlkaði skýrsluna sem svo að frumvarpið ógnaði fjármálum ríkisins og efnahagsstöðugleikanum. Þetta er í það minnsta ekki það sem kemur fram í skýrslunni.

Ég er hins vegar með aðra skýrslu hérna, virðulegi forseti, sem er skýrsla starfshóps um endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða. Þar er tafla og umfjöllun um stöðu íslensks sjávarútvegs í dag áður en kemur til boðaðra breytinga. Þar kemur fram að 60% íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja eru annaðhvort í erfiðri stöðu eða óviðráðanlegri, þ.e. munu eiga erfitt með að greiða skuldir sínar eða munu aldrei geta það.

Þess vegna spyr ég hv. þingmann: Telur hann ástæðu til að grípa til einhverra sérstakra ráðstafana til að bæta efnahag þessara fyrirtækja og þá þjóðarinnar í leiðinni eða finnst honum þetta ástand ásættanlegt?