139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[18:37]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir ræðuna sem að stórum hluta snerist um annað en frumvarpið sjálft sem við erum að ræða, þ.e. aðkomu þess inn í þingið og tæknileg atriði, allt í góðu með það. Það er dálítið vont að ræða mál þegar ekki er farið efnislega í það mál sem til umræðu er en hv. þingmaður tók þó undir lok ræðu sinnar smátíma í það.

Í skýrslu endurskoðunarhópsins, þess hóps sem tók að sér að endurskoða lög um stjórn fiskveiða og það frumvarp sem hér er til umræðu er sprottið af, segir um skuldsetningar í sjávarútvegi, með leyfi forseta:

„Mat eins banka var að hækkun skulda (sem ekki varð vegna gengishrunsins 2008) síðustu ár hafi verið 60% vegna kaupa á veiðiheimildum. … Annar banki taldi að ástæður yfirskuldsetningar sjávarútvegsfyrirtækja væru 54% vegna kaupa á aflaheimildum.“

Niðurstaða rannsókna- og þróunarmiðstöðvar Háskólans á Akureyri er hins vegar eins og segir í þessari skýrslu, með leyfi forseta:

„Okkar niðurstaða er sú að hækkun skulda frá 2003, sem ekki er vegna gengishruns krónunnar 2008“ — þ.e. fyrir utan hrunið — „hafi verið 50–60% vegna kaupa á aflaheimildum.“ .

Hér erum við að tala um yfirskuldsetningu, ekki heildarskuldir heldur yfirskuldsetninguna, að stærstum hluta vegna kaupa á aflaheimildum. Því spyr ég hv. þm. Pétur H. Blöndal í þessu sambandi hvaða mat hann leggi á þennan hluta yfirskuldsetningar sjávarútvegsfyrirtækjanna. Eins og ég nefndi áðan í andsvari við hv. þm. Tryggva Þór Herbertsson hefur þessi mikla yfirskuldsetning af þessum orsökum leitt til þess að um 60% sjávarútvegsfyrirtækja á Íslandi eru annaðhvort í mjög erfiðri stöðu eða óviðráðanlegri.