139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[20:00]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að fjalla aðeins um sjávarútvegsmál á breiðum grundvelli. Hér ræðum við hið svokallaða minna frumvarp en annað frumvarp fylgir í kjölfarið og þau eru nátengd þannig að ég ætla að leyfa mér að ræða þetta í samhengi.

Ég vil í fyrsta lagi fagna því að þessi mál eru komin til umræðu og inn á vettvang þingsins. Ég tel mikilvægt fyrir okkur þingmenn að taka hreinskiptnar umræður á vettvangi þingnefnda um svo veigamikil mál frekar en að hafa þau aflokuð í embættismannakerfinu eða í þingflokkum stjórnarflokkanna þar sem menn takast á um hin ýmsu sjónarmið. Ég vil því leggja áherslu á að ég fagna því að þetta frumvarp komist hér áfram og ég legg ríka áherslu á að það og hið síðara komist til nefndar þannig að við náum að ræða það á þeim vettvangi. Helsta vinnan sem fer fram á vettvangi þingsins fer fram í þingnefndunum. Þar leggjast menn á eitt um að ná samkomulagi, skiptast á skoðunum, fá inn gesti, leita eftir umsögnum og þar er hin djúpa pólitíska umræða tekin. Ég tel því mikilvægt að ef við viljum ná sátt um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu, í hvaða átt svo sem þær breytingar eiga að vera, fáum við málið inn til þingnefndanna.

Um er að ræða ákveðna kerfisbreytingu. Í stóra frumvarpinu erum við að tala um nýtingarsamninga, verið er að opna á ákveðna nýliðun í báðum frumvörpunum. Verið er að taka á framsalinu, verið að taka á mannréttindaákvæðinu en það er alveg ljóst að það er fjölmargt í þessu frumvarpi, um leið og ég fagna þessari kerfisbreytingu, sem ég mundi vilja sjá breytingar á. Ég ætla að eyða drýgstum tíma mínum í dag í að ræða þær breytingar sem ég mundi vilja gera á frumvarpinu. Það geri ég vegna þess að ég vil viðra mínar skoðanir. Ég vil viðra þá stefnu sem ég mundi vilja taka í þessum málum. Það er fyrst og fremst með hvaða hætti veiðigjaldið er innheimt, hvernig því er útdeilt. Ég vil setja fyrirvara við allt of miklar heimildir til handa sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og ég mundi líka vilja leggja fram spurningar, sem eiga kannski frekar heima í tengslum við stóra frumvarpið, um lengd nýtingarsamninganna.

Ég tel, hvað snertir nýtingarsamningana, að við eigum að nálgast það hugtak á þann veg að hvetja til þess að aðilar nýti auðlindir okkar. Setja má undir sama hatt vatnsaflið, jarðhitann og sjávarútvegsauðlindina. Það getur verið að við viljum ramma fleiri auðlindir inn á þennan hátt en þessar auðlindir eiga að vera og skulu vera í opinberri eigu. Þessar auðlindir á að nýta skynsamlega og við eigum að koma nýtingunni í hendur einkaaðila. Við eigum að láta þessa sömu einkaaðila gera samninga við hið opinbera en samningarnir verða að taka mið af því að hægt sé að nýta auðlindirnar skynsamlega, að menn fjárfesti í þeim tækjum og tólum sem þarf til að nýta þær á þann veg og að fyrir það sé greitt ríflega. Ég ítreka: Fyrir það sé greitt ríflega.

Ég held að stóra myndin, sem gæti verið skynsamleg hvað varðar sjávarútveginn, sé sú að nýtingarsamningarnir séu mislangir, það er að útgerðirnar geti gert langtímaplön en verði engu að síður að búa við þá staðreynd að hluti kvóta þeirra sé í samningum bundinn til skemmri tíma. Þannig gætum við kannski með einhverjum hætti komið til móts við ólík sjónarmið sem reifuð hafa verið á vettvangi þingsins en lengdin taki að hluta til mið af afskriftaferlinu þannig að menn treysti sér til að kaupa skuttogara, treysti sér til að endurnýja tæki o.s.frv.

Okkur hefur verið brigslað um það, þeim sem hafa stutt þetta frumvarp frá hæstv. ráðherra, að við viljum setja sjávarútveginn í uppnám, við séum að fara í stríð við sjávarútveginn o.s.frv. Ég vísa þeim ummælum öllum til föðurhúsanna. Ég legg á það áherslu, og ég veit að hæstv. ráðherra gerir það líka, að að sjálfsögðu viljum við ekki og ætlum okkur ekki að rústa þessum blómlega iðnaði. Menn eru fyrst og fremst að hugsa um það réttlætismál að um nýtingarsamninga er að ræða, að arðinum af auðlindinni sé jafnt skipt milli okkar allra. Það er lykilatriði í málinu og á að vera lykilatriði í nálguninni.

Ég vil til dæmis segja fyrir mitt leyti að langstærsta hagsmunamálið er veiðigjaldið. Ég held að þorri þjóðarinnar sé þeirrar skoðunar sömuleiðis. Ég held að lengdin á nýtingarsamningnum sé kannski ekki það hagsmunamál sem þjóðin er helst að velta fyrir sér. Ég held að þjóðin vilji sjá góð fyrirtæki blómstra í þessum geira, að menn sæki fram á ákveðinn hátt. Ég held, og þess vegna vil ég leggja á það áherslu, að aðalatriðið í nálguninni, til að við náum sátt meðal þjóðarinnar og geirans ef hægt er að orða það svo, útgerðarmannanna, sé að við horfum á upphæðina á veiðigjaldinu, upphæðina á því sem greitt er til þjóðarinnar af þeim afrakstri sem af auðlindinni er. Það er lykilatriðið og á það eigum við að horfa.

Það er þess vegna sem mig langar að staldra aðeins við það hvernig veiðigjaldið skal innheimt eftir því sem lagt er til í minna frumvarpinu. Ég er ósammála næstum því allri þeirri nálgun sem lagt er upp með þar. Talað er um að viðmið vegna útreiknings á veiðigjaldi verði á næsta fiskveiðiári hækkað úr 9,5% af reiknaðri EBITDA í 16,2% eða um 6,7 prósentustig. En einnig er gert ráð fyrir því að ráðherra geti tekið tillit til mismunandi framlegðar útgerðarflokka en ekki er hins vegar tilgreint á hvaða reglum eða viðmiðum það á að byggjast. Því er erfitt að meta hvaða áhrif það kynni að hafa á þessa tekjuöflun ríkisins. Svo segir einnig í umsögn fjármálaráðuneytisins, sem er mjög athyglisverður lestur, að sá hluti teknanna sem rynni til sjö sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, þar sem um 65% íbúar landsins búa, væri 1/80 hluti af innheimtu veiðigjaldi eða sem svarar til 1,3% af heildartekjunum og skiptist milli þeirra sveitarfélaga á því svæði á sama hátt eftir lönduðum afla í viðkomandi sveitarfélögum. Þetta fyrirkomulag mundi því jafnframt hafa það í för með sér að sveitarfélög þar sem engum afla er landað, hvort sem er á höfuðborgarsvæðinu eða í öðrum landshlutum, fengju enga hlutdeild í auðlindagjaldi sjávarútvegsins.

Ég vil fyrir mitt leyti setja stórt spurningarmerki við þá nálgun, mér finnst þetta með eindæmum. Ef við viljum breyta fiskveiðistjórnarkerfinu en um leið vernda geirann, ná sátt meðal landsmanna og tryggja öryggi, hagkvæmni og arðsemi er lykilatriðið að horfa á veiðigjaldið. Við eigum að taka veiðigjaldið í takt við það sem greinin skilar. Við eigum að miða það við þá arðsemi sem viðkomandi fær af nýtingu auðlindarinnar. Það er það gjald sem við eigum að taka til þjóðarinnar allrar, hvort sem við myndum auðlindasjóð eða látum þetta renna inn í ríkissjóð. Við getum látið þetta renna til skilgreindra verkefna en við eigum ekki að fara þá leið sem lögð er til í frumvarpinu að skipta þessu í gegnum sveitarfélögin. Það er feigðarflan.

Það er alveg ljóst að ef við teljum að um sameign þjóðarinnar sé að ræða, sem ég held að við séum öll sammála um, þá eigum við um leið að líta á afraksturinn sem sameign þjóðarinnar. Í umsögn fjármálaráðuneytisins segir til dæmis, ég ætla að fá að vitna beint í hana, virðulegi forseti:

„Það kann að orka tvímælis að almenn skattlagning á sameiginlega auðlind eigi að koma sumum landsmönnum meira til góða en öðrum eftir því hvar á landinu þeir búa, þar með talið þeim sem starfa við annað en sjávarútveg eins og á við um meiri hluta þeirra sem búa í sjávarbyggðum. Fram hafa komið ábendingar um að slíkt fyrirkomulag kunni að brjóta í bága við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.“

Ég get ekki skilið þetta öðruvísi og get ekki annað en tekið undir þetta álit fjármálaráðuneytisins. Þannig má ljóst vera að við erum að skekkja myndina hjá sveitarfélögunum. Við ættum frekar að spyrja: Ættu þau sveitarfélög sem ekki fá kvóta, sem ekki fá tekjur af því að sækja fiskinn og vinna hann, ekki frekar að fá tekjurnar sem eru til skiptanna ef við ætlum að fara þessa leið? Fjármálaráðuneytið heldur áfram, ég ætla að fá að lesa þetta hér upp, með leyfi forseta:

„Má reyndar ætla að sveitarfélög séu þess betur sett fjárhagslega sem meira aflaverðmæti er landað hjá þeim og því muni aukin framleiðsla þeirra auka á misvægi í rekstrarskilyrðum sveitarfélaga á landinu.“

Maður getur svo haldið áfram í þessari mjög svo athyglisverðu umsögn fjármálaráðuneytisins en allt ber að sama brunni. Innheimta veiðigjaldsins er að mínu viti skökk og dreifing teknanna er líka skökk. Hún fer gegn þeim sjónarmiðum sem við viljum halda í, um markaðar tekjur ríkisins. Þetta fer gegn þeim sjónarmiðum sem við horfum til. Ríkissjóður er rekinn með tugmilljarða halla og veitir ekki af öllum þeim tekjum sem hægt er að ná í.

Þá er það spurningin: Hefur sjávarútvegurinn efni á að greiða hærra veiðigjald? Þeirri tölu hefur verið flaggað í umræðum á þingi að nettóhagnaður fiskvinnslu og útgerðar á árinu 2009 hafi verið 45 milljarðar kr., en af þeirri upphæð greiðir útgerðin og fiskvinnslan 3 milljarða í veiðileyfagjald og 1 milljarð í tekjuskatt. Til þessa dags hafa útgerðarmenn greitt 6,5 kr. á kílóið í veiðileyfagjald en samkvæmt því frumvarpi sem liggur fyrir hér á að fara með þessa tölu upp í 13 kr. á hvert kíló. En ég vil vekja á því athygli í þessu sambandi að útgerðarmenn hafa verið að taka um 300 kr. í leigugjald af þeim sem hafa þurft að leigja af þeim kvóta. Mér finnst það því ekki trúverðugur málflutningur hjá LÍÚ að verið sé að setja útgerðina á hausinn. Ég hef engan áhuga á að setja útgerðina á hausinn. Ég mundi aldrei samþykkja frumvarp sem mundi setja útgerðina á hausinn. Ég legg hins vegar til að við hækkum veiðigjaldið og látum það taka mið af framlegðinni í greininni. Þegar menn eru búnir að leggja út fyrir launakostnaði, leggja út fyrir afskriftum, búnir að leggja út í þann kostnað sem sannarlega fellur til og eftir stendur sá arður sem myndast hefur af nýtingu sameiginlegrar auðlindar ber að skipta arðinum réttlátlega milli þess sem nýtir og þjóðarinnar sem á auðlindina. Það er lykilatriðið í nálgun minni í þessu máli. Ef við nálgumst þetta verkefni út frá þessum punkti þá getum við náð sátt um þau verkefni sem fram undan eru í þinginu á vettvangi þingnefnda og náð sátt um þær breytingar sem þarf að ráðast í á fiskveiðistjórnarkerfinu.

Ég er bjartsýnn á að við getum nálgast þetta verkefni. Ég er það eftir að hafa kynnt mér ályktun Framsóknarflokksins um sjávarútvegsmál. Að mörgu leyti eru þær hugmyndir sem þar koma fram miklu nær frumvarpi sjávarútvegsráðherra en ég gæti verið sáttur við og er sammála. Þær útfærslur sem Framsóknarflokkurinn leggur áherslu á eru í miklu meiri sátt við frumvarp hæstv. ráðherra en skoðanir mínar. (TÞH: Þú vilt kannski bara ganga í Framsóknarflokkinn?) Hv. þingmaður grípur fram í fyrir mér og ég verð eiginlega að leyfa sjónvarpsáhorfendum að heyra það. Hann spyr hvort ég sé kannski á leið í Framsóknarflokkinn. En ég held að þetta sýni það frekar að ég er ekki á leið í Framsóknarflokkinn. Ég er hjartanlega ósammála þeirri nálgun sem þar er lagt upp með, ég mundi vilja ganga í aðra átt. En ég held að þetta sýni hins vegar að hægt er að nálgast þetta verkefni skynsamlega því að hluti stjórnarandstöðunnar er að stórum stofni til sammála þeirri nálgun sem lagt er upp með í frumvarpinu.

Ég ítreka að hér er verið að leggja til kerfisbreytingu, ég er sáttur við hana, ég mundi að sjálfsögðu vilja stilla einhver ákveðin atriði tæknilega, breyta þessu hér og breyta þessu þar og ég sé fyrir mér að sú vinna eigi að eiga sér stað á vettvangi þingnefndarinnar. Ég tel því mikilvægt að við náum þessu máli og stóra málinu inn til þingnefndar til að við getum náð umræðu, kallað til umsagnaraðila, lesið ítarlega allar þær hagfræðilegu greiningar sem við þurfum á að halda o.s.frv. þannig að á vettvangi þingnefndarinnar komi fram frumvarp sem við getum náð meiri sátt um. Það held ég að sé lykilatriðið. Ég ítreka það á minni síðustu mínútu að við eigum að nálgast verkefnið út frá lykilprinsippinu, sem ég held að langstærsti hluti þjóðarinnar sé að velta fyrir sér, það er hvernig afrakstrinum sé skipt. Við getum ekki farið inn í útgerðirnar í dag og heyrt að allir þeir sem hafi kvóta í dag borgi fyrir mistök fyrri tíðar. Við getum ekki krafist þess af þeim sem eru með kvóta í dag, sem hafa langflestir keypt þann kvóta á markaði, að við fáum að taka af þeim kvótann með valdbeitingu. Það er ekkert að gerast og ég held að enginn sé að velta því fyrir sér, að minnsta kosti vona ég ekki. Það er enginn að velta því fyrir sér að rústa sjávarútveginum og ég ætla ekki að taka þátt í málflutningi á því plani. Það eina sem ég tel að við eigum að gera er að vinna þetta mál áfram, við eigum að vinna stóra málið áfram, við eigum að stefna að því að ná sátt um það og við eigum að láta sáttina hverfast um auðlindagjaldið sjálft, gjaldið sem greitt er af afrakstri af nýtingunni þannig að því sé betur skipt á milli landsmanna. Það tekst ekki í þessu frumvarpi því miður og það er sú breyting sem ég mundi helst vilja gera á því, það er að innheimta veiðigjaldið og að útdeiling veiðigjaldsins sé með skynsamlegri hætti en hér er lagt til.

Annars vil ég bara segja að kerfisbreytingin er jákvæð og ég óska sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til hamingju með frumvarpið. Ég held að við séum að stíga stórt skref í átt til sáttar.