139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[20:15]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var mjög athyglisverð ræða og ber að þakka hv. þm. Magnúsi Orra Schram fyrir framlag sitt til þessarar umræðu vegna þess að ég held að það varpi ansi góðu ljósi á þá stöðu sem nú er uppi.

Ég heyri ekki betur en að þrátt fyrir að hv. þm. Magnús Orri Schram þakki hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fyrir að flytja þetta frumvarp sé hann andvígur eiginlega öllu í því. Ef við tölum bara um hið svokallaða smærra frumvarp sem við erum að ræða þá heyrist mér að það eina sem hv. þingmaður geti fallist á í því sé hækkun veiðigjalds en hann gerir verulegar athugasemdir við útfærsluna. Ég á bágt með að ímynda mér að hv. þm. Magnús Orri Schram sé sáttur við allar þær ómótuðu og ótilgreindu heimildir sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ætlar að taka í sínar hendur með öðrum ákvæðum frumvarpsins. (Forseti hringir.) Þess vegna spyr ég hv. þingmann: Er eitthvað annað en hækkun á hlutfalli veiðigjalds í þessu frumvarpi sem hann styður?