139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[20:17]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins leggja út af þeirri nálgun á viðfangsefninu sem hv. þm. Birgir Ármannsson gerði að umtalsefni. Mér finnst ekkert hjákátlegt eða neyðarlegt að ég sé ekki fullkomlega sáttur við eða sammála því frumvarpi sem hér er lagt fram. Ég skammast mín ekkert fyrir að gera athugasemdir við frumvarp frá hæstv. ráðherra. Mér finnst það frekar til bóta að stjórnarþingmenn komi hingað upp og lýsi yfir skoðunum sínum á þeim frumvörpum sem fyrir liggja. Ég vil miklu fremur hafa umræðuna og skoðanaskiptin fyrir opnum tjöldum en í myrkum bakherbergjum. Ég held að það sé betra fyrir þingmenn og sjávarútveginn sömuleiðis að menn heyri og viti hvaða skoðanir þjóðkjörnir fulltrúar hafa á framlögðu frumvarpi og að þeir séu ekkert feimnir við að viðra þær skoðanir.

Aðalatriðið í málinu er að ég fagna þeirri kerfisbreytingu sem hér er lögð til, bæði í litla frumvarpinu og því stóra. Mínar helstu athugasemdir eru innheimta, útdeiling og reglugerðarheimildir.