139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[20:33]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður gerir vinnulagið að umtalsefni og telur að þar sem ég styðji frumvarpið séu það óvönduð vinnubrögð að það sé komið hingað. Um leið langar mig til að tala um vinnulag í íslenskri pólitík. Ég sagði áðan í fyrra andsvari að ég setti fjölmarga fyrirvara við þetta mál en ég tel hins vegar að þetta mál sé þannig vaxið að hér séum við að innleiða kerfisbreytingu í íslenskum sjávarútvegi og málið þurfi að fara til þingsins, það þurfi að fara til þingnefndar og þurfi að fara í almenna umræðu til að við getum tekist á um þetta verkefni og reynt að ná sátt. Það er lykilpunkturinn. Þess vegna er mikilvægt að málið fái framgang og eðlilega umfjöllun. Ég taldi því rétt að málið færi áfram í gegnum þingflokk Samfylkingarinnar þó að um leið, eins og ég hef áður greint frá, setti ég fyrirvara við ákveðna þætti. Svo verðum við bara að sjá hvað gerist með frumvarpið, hvort ég styð það á endanum.