139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[20:36]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Áðan hélt ég ræðu, mína fimm mínútna seinni ræðu, og þurfti að nota hluta af henni til að óska eftir því að hæstv. sjávarútvegsráðherra yrði viðstaddur. Hann birtist ekki neitt. Ég var með ákveðnar spurningar til hans, ég veit ekki hvort hann hefur náð þeim.

Hvers lags umræða er þetta eiginlega, herra forseti? Við samþykktum í sumar þingsályktun 63:0 um að auka veg Alþingis. Hér erum við með tvö frumvörp sem voru tekin með tvöföldum afbrigðum, 1. apríl-ákvæðið, og svo er allt of stutt síðan þeim var dreift. Flytjandi málsins, hæstv. sjávarútvegsráðherra, lætur ekki svo lítið að sitja hérna yfir umræðunni, hann er að flytja málið sjálfur fyrir utan aðra ráðherra í ríkisstjórninni. Ég hélt nefnilega, herra forseti, að sjávarútvegur skipti íslenska þjóð töluverðu máli, alla vega á Siglufirði.