139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[20:41]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég tek undir óskir hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um að hér verði gluggatjöldin dregin frá til að það megi birta nokkuð í salnum og í lífi stjórnarandstöðunnar en ég held að það sé nokkur óbilgirni í þeim kröfum sem hér er verið að gera að kvöldi. Auðvitað hefur hæstv. sjávarútvegsráðherra verið viðstaddur og eftir atvikum fylgst með umræðunni annars staðar úr sölum þingsins og bregst væntanlega við því sem hann þarf að bregðast við, ýmist í andsvörum eða í lokaræðu sinni.

Hæstv. fjármálaráðherra, sem hér hefur verið kallað eftir, hygg ég að sé með fjarvist eða er a.m.k. ekki tiltækur á landinu. Hvað varðar forsætisráðherra þá held ég að hún hafi lýst því yfir að stóra málið sé höfuðmál ríkisstjórnarinnar, kerfisbreytingarnar í sjávarútveginum, og eðlilegt að kallað sé eftir því að hún verði hér þá. En litla málið er náttúrlega á forræði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og er þingmönnum fullur sómi (Forseti hringir.) sýndur með nærveru hans hér og formanns og varaformanns nefndarinnar auk annarra stjórnarliða.