139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[20:45]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fyrir að bregðast skjótt við óskum um að koma í salinn. Eins og ég tók fram í stuttri ræðu áðan hefur hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra verið að mestu viðstaddur þessa umræðu og tekið virkan þátt í henni, einkum framan af. Er það gott og vona ég að hann eigi eftir að vera virkur í umræðunni líka það sem eftir er. Varðandi hæstv. sjávarútvegsráðherra er það auðvitað rétt að málið er á forræði hans.

Hins vegar er ekki óeðlilegt að spurt sé eftir afstöðu leiðtoga ríkisstjórnarflokkanna, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra, vegna þess að ljóst er að ekki er fullur stuðningur í ríkisstjórnarflokkunum við frumvarp hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Hér hefur hver stjórnarþingmaðurinn á fætur öðrum komið upp í ræðustól og gagnrýnt veigamikla þætti í þessum frumvörpum. Því er ekki óeðlilegt að spurt sé: Hver er afstaða forustumanna ríkisstjórnarflokkanna sem (Forseti hringir.) sameiginlega bera ábyrgð á því að þetta mál er flutt?