139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[21:10]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst leiðinlegt að heyra að hv. þingmaður efist um að þeir útgerðarmenn sem við höfum talað við fari með satt og rétt mál. En af því að þingmaðurinn talar um forréttindastétt þá getum við tekið dæmi um fyrirtæki eins og á Norðfirði þar sem SÚN er stór hluthafi og ég held að 10% eða 15% af öllum arði í fyrirtækjunum sé dreift beint innan byggðarlagsins. Það er í samvinnufélagsformi.

En það sem mig langaði líka til að spyrja þingmanninn að er hvar sjái þessi merki á Eskifirði að útgerð þar hafi hrakað í kjölfar þess að einhverjir fóru út úr fyrirtækinu.