139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[21:11]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þess sér merki á Eskifirði að útgerðin er mun skuldsettari vegna þess að hún þurfti að kaupa sig aftur inn í greinina. Ég vil hins vegar segja hv. þingmanni að ég talaði ekki um forréttindastétt í máli mínu, ég talaði um forréttindi. Ég vil síður að hann leggi mér orð í munn. Ég hef goldið varhuga við stórum orðum í þessari umræðu og hef reynt að temja mér hófmælgi í umræðu um þann mikilvæga málaflokk sem sjávarútvegurinn er.

Ég tel almennt séð að þau fyrirtæki sem hafa sýnt mestu byggðafestuna, mesta virðisaukann og farið best með auðlindina muni einmitt verða þau innan leigukerfisins sem fái að leigja auðlindina til lengsta tímans rétt eins og gengur og gerist í leigukerfi á húsnæðismarkaði — við verðlaunum þá sem fara best með íbúðina og þeir fá að leigja lengst og eins verður það í sjávarútveginum.