139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[21:12]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni fyrir ræðu hans. Það er ljóst að það eru ákveðnir þættir í frumvörpunum, bæði í þessu og hinu stærra, sem hann styður en ég get ekki betur heyrt en að hann geri verulegar athugasemdir við útfærsluna.

Af því að við erum að ræða hið svokallaða smærra frumvarp nú sem stendur vildi ég spyrja um afstöðu hans til þeirra breytinga sem nákvæmlega í því felast. Þá er ég fyrst og fremst að hugsa um pottagaldrana annars vegar, þ.e. aukninguna í pottunum og heimildir ráðherra í því sambandi, og hins vegar útfærsluna varðandi úthlutun þess sem innheimtist með veiðileyfagjaldinu.