139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[21:19]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er fegin að heyra að fyrirvarar þingmannsins lúta að bæði framsalinu og ráðherraræðinu sem fylgir í þessu frumvarpi. Við skulum átta okkur á því að innan tíðar getur ráðherrann sjálfur verið með allt að 100 þús. ígildum í gegnum pottana sem hann getur „vílað og dílað“ með hverju sinni. Ég tel þetta bagalegt og miklu meira en það, ég held að þetta sé mikil skammsýni og síst til þess fallið að stuðla að því að við fjarlægjumst hokur landbúnaðarkerfisins. Þetta stuðlar miklu frekar að því að allt verði eins og landbúnaðarkerfið er, þunglamalegt og svifaseint, í stað þess að vera núna með ákveðna reglufestu og markaðsdrifið eins og sjávarútvegurinn er rekinn í dag.

Það er ekki af sjálfu sér sem íslenski sjávarútvegurinn er eini sjávarútvegurinn sem er rekinn með jafnmikilli arðbærni og raun ber vitni, og eini sjávarútvegurinn í dag sem ekki er ríkisstyrktur. Ég held að það sé til mikils að vinna að við reynum að forða ríkinu frá rekstrinum í sjávarútvegi til þess að nota meðal annars í góða þjónustu sem við erum sammála um að eigi að vera góð eins og á sviði velferðarmála. Þar þurfum við á fjármagni að halda en ekki að dæla því inn í sjávarútveginn. Við erum að fara þá leið með þessu frumvarpi (Forseti hringir.) og líka hinu sem vonandi kemur aldrei til umræðu í þinginu.