139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[21:22]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Eitt sem hv. þingmanni varð tíðrætt um í ræðu sinni var að það yrði að verðlauna þau fyrirtæki sem hefðu sýnt byggðafestu í gegnum árin. Þá langar mig að nefna staðreyndir um það mál.

Árið 2007 var þorskkvótinn skertur um 33% sem gerði það að verkum að sumir urðu að selja sig út úr greininni. Þá kom upp sú staða í mörgum byggðarlögum, og það þekki ég mjög vel, að hinir sem eftir sátu í byggðarlögunum keyptu kvótann til að halda honum heima og sýna þessa byggðafestu. Síðan veit hv. þingmaður hvað gerðist. Hér varð eitt stykki bankahrun og þeir sem voru búnir að selja frá sér kvótann áttu tryggar innstæður. Skuldir þeirra sem hins vegar keyptu kvótann og sýndu byggðafestuna rúmlega tvöfölduðust eða allt að þrefölduðust.

Síðan voru settar á strandveiðar. Ég talaði fyrir því 2009 þegar þær voru settar á að menn sem voru búnir að selja sig út úr greininni fengju þá ekki að fara inn í strandveiðarnar. Á það var ekki hlustað. Þess vegna spyr ég hv. þingmann: Finnst honum að það sé búið að sýna þeim fyrirtækjum (Forseti hringir.) sem hafa sýnt byggðafestu einhvern ávinning af því sem gert hefur verið?