139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[22:24]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Það er tvennt sem mig langar að ræða við hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur. Annars vegar, af því að ég veit ég að hún hefur áhuga á uppbyggingu á ferðaþjónustu í landinu, langar mig velta upp hugmyndum okkar framsóknarmanna, og þær hafa nú verið mikið til tals í umræðunni um þetta frumvarp, en við erum með tillögu um það sem kallast frístundaveiðar í dag og tengist kannski fyrst og fremst sjóstangveiðinni. Við viljum skipta um nafn á því apparati og láta það heita ferðaþjónustuveiðar og gera þetta með þeim hætti að þær útgerðir eða í raun og veru ferðaþjónustufyrirtæki þurfi ekki að eiga veiðiheimildir eða leigja þær — það hefur verið akkillesarhæll þeirra í uppbyggingunni — heldur geti þau selt ferðaþjónustu á grundvelli hugmyndafræði ferðaþjónustunnar og menn farið á sjóstöng og landað síðan aflanum á Hafrannsóknastofnun sem svokölluðum VS-afla. Þar með sé tryggt að þau fái ákveðinn kostnað greiddan og það verði einhver hvati í því og þar með sé búið að ýta til hliðar þessum veiðiheimildaskorti sem jafnvel hefur valdið því að fyrirtækin hafa ekki getað staðið við ferðaþjónustuna. Þetta má auðvitað líka yfirfæra á sjóstangveiðina, keppnirnar, þannig að þar yrði þetta leyft líka. Þetta yrði nýjung sem ekki er í dag. Mig langaði að heyra álit þingmannsins á þessu.

Hins vegar, af því að við vorum að tala um ráðherraræðið, erum við framsóknarmenn líka með tillögur um byggðakvótann, að í stað þess annars vegar flókna kerfis (Forseti hringir.) eins og er í dag og hins vegar þess sem er jafnvel enn flóknara í frumvarpinu, yrði þetta einfaldlega þannig að fiskvinnslurnar í landinu (Forseti hringir.) fengju þennan kvóta beint til sín og mundu síðan semja við útgerðir. Einfaldar reglur, ekkert ráðherraræði. (Forseti hringir.) Mig langar að heyra álit (Forseti hringir.) þingmannsins á því.