139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[22:29]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Mig langar að halda aðeins áfram á sambærilegum nótum. Þegar þingmaðurinn talar um undanþágur frá núverandi kerfi er það auðvitað í sambandi við byggðajöfnun, þessa byggðakvóta, og þá er auðvitað verið að reyna að tryggja atvinnu. Ein leiðin til þess væri auðvitað sú sem ýjað er að í frumvarpinu að fara svolítið aftur í tímann, og margar af þessum ívilnunum, línuívilnunum og byggðaívilnunum snúast einmitt um að snúa hjóli tímans aftur á bak þannig að fleira fólk sé að vinna en það kemur auðvitað niður á arðsemi greinarinnar. Mig langar að heyra álit þingmannsins á því að árið 1991 störfuðu held ég um 15 þúsund manns í greininni en í dag eru það 6 til 7 þúsund. Mér hefur stundum heyrst af mati núverandi stjórnarliða (Forseti hringir.) að þeir gætu hugsað sér að aftur væru 15 þúsund manns að vinna við þetta og gleyma þá öllum tækninýjungunum. Hvert er álit þingmannsins á því?