139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[22:30]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil aðeins undirstrika varðandi frístundaveiðarnar að ég held að við eigum að sjálfsögðu að skoða alla þá þætti sem geta eflt ferðaþjónustuna án þess þó að einhverjir brestir verði í meginstoðum kerfisins. Ég held að hægt sé að finna ágætislausn á því og það kann vel að vera að framsóknarmenn hafi fundið hana.

Aðeins varðandi tækninýjungarnar, ég held að í öllum þeim ræðum sem hafa verið fluttar hafi hv. þm. Pétur Blöndal dregið fram bestu samlíkinguna, að mínu mati, um orfið og ljáinn. Það er ósköp auðvelt fyrir ríkisstjórnina að segja: Við ætlum við að fjölga störfum í landbúnaði, við ætlum að afhenda öllum orf og ljá og allir eiga að fara að heyja. Ég heyja á hverju sumri um 110 rúllur fyrir mína hesta. Í gamla daga þegar við vorum með heysáturnar fyrst og síðan baggana vorum við kannski að í fimm, sex daga, urðum svolítið að treysta á guð og lukkuna með það hvernig veðrið yrði. (Forseti hringir.) Í dag getur þetta tekið (Forseti hringir.) tvo daga ef við ætlum að hafa svolítið blautt í því. Þetta segir allt, finnst mér, um það að við eigum að sjálfsögðu að nýta tæknina, nýta það svigrúm sem hún gefur. Það þýðir (Forseti hringir.) að við getum líka um leið aukið arðbærni og hagkvæmni í því sem við stöndum frammi fyrir hverju sinni.