139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[22:58]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er ágætiskenning, ég hef gaman af skemmtilegum samsæriskenningum og ætla ekki að útiloka þessa. En fyrst hv. þingmaður nefndi Evrópusambandið finnst mér annað því tengt mjög merkilegt í þessu. Hvað er það sem við höfum stært okkur af á erlendum vettvangi? Hver er helsti ásteytingarsteinn okkar og skiptir okkur í mismunandi hluta eftir því hvort við erum hlynnt eða andvíg Evrópusambandsaðild? Það er fiskveiðistjórnarkerfið. Við erum með fyrirmyndarfiskveiðistjórnarkerfi sem ég hef heyrt þingmenn og fulltrúa Samfylkingarinnar mæra á erlendri grundu. Þar eru framseljanlegir kvótar taldir til tekna. Þar er hagræðing og arðsemi af fiskveiðunum (Forseti hringir.) talið til tekna. Núna vilja Samfylkingin og Vinstri grænir eyðileggja fiskveiðistjórnarkerfið og ég veit ekki hvort það er til þess fallið að koma okkur inn í Evrópusambandið eða til að halda okkur þar fyrir utan. Ég (Forseti hringir.) átta mig hreinlega ekki á því.