139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:03]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Já, hv. þm. Pétur Blöndal hefur verið óþreytandi að koma með ýmsar tillögur til úrbóta. Það er rétt sem þingmaðurinn sagði og ég nefndi áðan í ræðu minni: Við erum reiðubúin að gera breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Við höfum aldrei haldið því fram að það væri fullkomið, ekki frekar en önnur mannanna verk. Þess vegna tókum við þátt í sáttanefndinni. Þess vegna stóðum við að þeirri sameiginlegu niðurstöðu sem þar liggur. Þetta er ekki sú niðurstaða. Mistökin sem ríkisstjórnin gerði voru þegar vinnunni í sáttanefndinni lauk og samráðinu og samstöðunni sem þar náðist var hent. Ég man eftir því þegar hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir kom hingað upp í óundirbúnum fyrirspurnum eða störfum þingsins eftir að hafa verið spurð um þetta og sagði: Nú er samráðinu lokið, nú ætlum við að uppfylla (Forseti hringir.) stjórnarsáttmálann — sem var kannski ekki alveg það sem hún fann út að hefði verið niðurstaða sáttanefndarinnar.