139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:11]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hefði kannski átt að leiðrétta mig. Það kom líka fram í ræðu hjá hv. þm. Árna Johnsen sem er félagi okkar í Suðurkjördæmi að hann væri alfarið á móti veiðigjaldi. Það virðast alla vega vera aðeins skiptar skoðanir hvað þetta varðar innan Sjálfstæðisflokksins.

En ég vil gjarnan ítreka spurningu mína varðandi 2. gr., hvort hv. þingmaður sé sammála þeirri afstöðu samþingmanna sinna sem kemur fram í frumvarpi sem þeir fluttu sem var nánast samhljóða greininni.

Varðandi 4. gr. er sérstaklega verið að fjalla um tegundatilfærslur og í skýrslu endurskoðunarnefndarinnar get ég ekki betur séð en þar sé verið að leggja til nákvæmlega þá þætti sem koma fram í 4. gr. Meiri hluti starfshópsins var sammála um að það ætti að þrengja heimild til tegundatilfærslu þannig að útgerðin lægi ekki á miklum aflaheimildum verðmætra þorskígildistegunda eingöngu til að (Forseti hringir.) nýta tilfærslurnar og það yrði ekki þannig að ákvæði um tegundatilfærslu yllu ofveiði í einstökum tegundum. Svo virðist sem verið sé að koma til móts við það í 4. gr.