139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:31]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þingmaðurinn hafði þau orð uppi að þegar hann færi í þennan ræðustól fylltist hann kjánahrolli. Ég hryggist yfir því vegna þess að ég vona að þingmaðurinn starfi hér í sátt við sjálfan sig.

Þannig er að samfylkingarþingmenn virðast ekki vita út á hvað umsóknin um aðild að Evrópusambandinu þýðir. Ísland er strandríki, Ísland er þannig statt á landakorti heimsins að við höfum aðgang að norðurslóðum. Það er yfirlýst stefna Evrópusambandsins að komast inn á norðurslóðir. Það er orðið tímabært að þingmenn Samfylkingarinnar vakni og átti sig á því. Það þýðir ekkert að blekkja bæði þing og þjóð með því að hafa þessi ákvæði ekki inni í frumvörpunum sem hér eru lögð fram, þetta er stefna Evrópusambandsins. Við skulum bara tala kjarnyrta íslensku. (Forseti hringir.) Íslenski sjávaraflinn er 40% af fiskveiðiafla Evrópusambandsins og það eitt svarar þessari spurningu.