139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:36]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir þessa fyrirspurn. Það hefur ekkert verið rætt hér í þingsal hvaðan þetta 23 ára ákvæði kemur nema þegar maður les frumvörpin saman, þá á það frumvarp sem hér er til umræðu að gilda út árið 2013 og þetta frumvarp að taka við af því. Í frumvarpinu sem er nú til umræðu er þriggja ára aðlögunartími og svo á stóra frumvarpið að taka við. Þá erum við komin með 23 ár samtals í þessum frumvörpum, verði þetta að lögum. Við verðum komin fram til ársins 2034. Þetta smellur alveg við 20/20-leið Evrópusambandsins sem Samfylkingin er að innleiða í íslenska löggjöf. Ég er alveg sammála þingmanninum um að sólarlagsákvæði í lögum sem eitt Alþingi setur er bara helber bjánaskapur, afsakið orðbragðið. Þess vegna segi ég: Þegar ríkisstjórn getur leyft sér (Forseti hringir.) að koma fram með mál sem standast hvorki venjulega lagasetningu né stjórnarskrá á sú ríkisstjórn að segja af sér.