139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:38]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hárrétt. Eitt Alþingi getur ekki tekið löggjafarvaldið af nýju Alþingi. Þegar þetta er skoðað þá er þetta ótrúlega fáránlegt og sérstaklega í ljósi þess að hér er verið að eyða dýrmætum tíma þingsins, í stað þess að hjálpa fyrirtækjum og fjölskyldum, að ræða frumvarp sem verður kannski að lögum á vorþinginu en það á samdægurs að fella það úr gildi með þessu stærra frumvarpi. Þetta eru handarbakavinnubrögð, herra forseti. Þetta eru handarbakavinnubrögð sem eru Alþingi Íslendinga ekki sæmandi. Það er orðinn svo mikill vitleysisgangur á þessari ríkisstjórn að maður hefur tæpast lyst á að taka þátt í þessu lengur. Ef ríkisstjórnin ætlar ekki að fara að temja sér betri vinnubrögð ítreka ég að hún verður að fara frá. Það er ekki boðlegt Alþingi Íslendinga að eyða dýrmætum tíma og fjármagni í að ræða eitthvert frumvarp sem verður jafnvel að lögum og þau verða felld brott samdægurs.