139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:42]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég kem upp til að ræða fundarstjórn forseta því ekki hefur enn borist svar við því hvort við eigum að ræða málin inn í uppstigningardag, hann rennur brátt upp.

Eins langar mig til að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra verði kallaður í hús til að upplýsa bæði þing og þjóð hvað hann áætlar að taki við eftir 23 ár þegar sólarlagsákvæðið í seinna frumvarpinu fellur niður. Þessi atvinnugrein, sem skiptir okkur miklu máli og skapar á milli 200–250 milljarða á ári í íslenskt þjóðarbú, er skilin eftir í miklu uppnámi. Hvað á þessi fundur á að standa lengi?

Hv. þm. Höskuldur Þórhallsson talaði um að kalla þyrfti til Vinnueftirlitið vegna bjöllusláttar hæstv. forseta á sínum tíma. Ég minni jafnframt á að til eru lög í landinu sem kveða á um að vinnutími skuli ekki vera of langur, hafa þurfi 11 stunda vinnuhlé, en það á víst ekki við um þá sjálfa sem setja lögin.