139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:44]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir þær upplýsingar um að hann hyggist halda fundi áfram þar til þingflokksformenn ljúka fundi. Ég ítreka að mjög mikilvægt er að það komi fram vegna þess að ég hef skilið það þannig að samkomulag væri um að þingfundur væri til 12 og ekki hafa verið greidd einu sinni atkvæði um það hvort til stæði að veita heimild til að halda þingfund lengur en þarf að gera á þessum degi. Það var samkomulag um að halda þingfund til 12 eftir því sem mér er tjáð og ef ég veit rétt er næsti ræðumaður hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og hann á eftir kortersræðu. Það má því reikna með að það verði þá alveg undir hálfeitt. Ég skora því á hæstv. forseta í ljósi þessa að slíta fundi til að þetta samkomulag haldi frekar en að halda áfram á meðan þingflokksformenn eru að funda. Ég sé engan tilgang með því.