139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:48]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það er rétt, sem bent hefur verið á, að þingfundur hefur nú staðið ívið lengur en venja er og um það var samkomulag, það er vissulega rétt. En ég er ekki viss um að neinn hafi túlkað það á þann veg að hér ætti að vera fundur langt fram á nótt eða fram undir morgun, ég átti ekki von á því.

Ef það væri ástæðan fyrir því að halda fundi svona lengi áfram að við ættum von á hæstv. forsætisráðherra eða hæstv. fjármálaráðherra í hús til að svara spurningum sem til þeirra hefur verið beint í umræðunni eða gera grein fyrir sjónarmiðum sínum, eins og ítrekað hefur verið óskað eftir, þá væri ég til í að vera hér aðeins lengur, ef það væri markmiðið. Ég vil því spyrja hæstv. forseta hvort líkur séu á því að annar hvor eða báðir þessara hæstv. ráðherra komi til þings til að svara spurningum sem til þeirra hefur verið beint (Forseti hringir.) eða hvort ætlunin sé að ljúka þessari umræðu án þess að leiðtogar ríkisstjórnarinnar tjái sig um þetta umdeilda mál.