139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:50]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Forseti hefur líka verið þekktur fyrir það í hjáverkum að vera liðtækur með dómaraflautuna á pæjumótum á Siglufirði og hefur verið góður þar. Ég held að hann ætti að meta stöðuna í þinginu af sömu natni og hann hefur gert á þeim mótum fyrir norðan og sjá að það er mun skynsamlegra, nú þegar hallar í miðnætti, að gera frekar hlé á þinginu meðan þingflokksformenn eru að funda. Við getum nefnilega ekki gefið okkur að þingflokksformennirnir taki bara tvær, þrjár mínútur. Það er allt eins líklegt að það taki mun lengri tíma að ná samkomulagi og niðurstöðu. Ég mæli því eindregið með því að gert verði hlé á þingfundi og helst að honum verði slitið þar til á föstudaginn. Við erum, enn sem komið er alla vega, kristin þjóð. Eftir 10 mínútur gengur í garð rauður dagur eins og hv. þingmaður nefndi áðan, dagur sem er hátíðisdagur hjá kristnum mönnum, uppstigningardagur. Ég mæli eindregið með því að við hér á Alþingi, með fullri virðingu fyrir okkur öllum, tölum ekki fram á nótt og fram á þennan merka dag kristinnar þjóðar.