139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:51]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þau svör sem ég hef fengið, bæði frá þeim þingmönnum sem hafa komið hingað í ræðustól og greint frá því samkomulagi sem er í gildi og frá virðulegum forseta.

Ég minntist á að þessi fyrirspurn mín stafaði af umhyggju fyrir starfsfólki okkar, það er náttúrlega mikið álag þegar kvöldfundir eru dag eftir dag.

En ég ætla líka að fá að beina umhyggju minni að hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni. Hann er næstur á mælendaskrá og samkvæmt því samkomulagi sem hér var rætt um eru eftir sjö mínútur af þessum þingfundi. Það er mjög óþægilegt að byrja ræðu og fá ekki að ljúka henni. Ég fékk sjálf að upplifa það í þessari umræðu, fékk að vísu að ljúka henni samdægurs en aðrir þingmenn (Forseti hringir.) hafa þurft að bíða heilan dag. Það mundi hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson líka þurfa að gera því að ég geri ekki ráð fyrir að við ætlum að funda hér á morgun. Við viljum gjarnan að eitthvert (Forseti hringir.) samhengi sé í ræðum okkar og það rofnar oft ef heilir dagar líða á milli.