139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:54]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég hafði þann skilning að það samkomulag sem orðið hefði milli þingflokksformanna, og ég hygg að samningafundur standi yfir núna, hafi falið það í sér að þingfundir skyldu ekki standa lengur í þessari viku en til kl. 12 á miðnætti. Ég er nánast örugg á því að aldrei hefði verið um það samið, virðulegi forseti, að halda þingfund fram á nótt í aðdraganda uppstigningardags. Ég bið hæstv. forseta af mildi sinni að gera örstutt hlé á þessum fundi til að kanna þennan skilning hjá þingflokksformönnum, ekki síst vegna þess að við vitum að fundur stendur um þinghaldið.

Ég fer þess á leit, með fullri vinsemd, við virðulegan forseta að hann sýni þessi liðlegheit hér skömmu fyrir miðnætti. Enda verður það að teljast nánast ófært að bjóða hv. þingmanni, formanni Framsóknarflokksins, upp á það að hefja ræðu sína á fyrstu mínútum uppstigningardags.