139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:57]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Eins og vakin hefur verið athygli á hefst almennur helgidagur eftir örfáar mínútur. Ég man ekki til þess — hæstv. forseti, getur leiðrétt mig ef hann man betur — að þingfundir hafi verið haldnir fram á þá helgidaga þjóðkirkjunnar, kristinna trúfélaga, sem skilgreindir eru lögum samkvæmt sem almennir frídagar. Það kann að vera að mér skjátlist um þetta og bið ég þá hæstv. forseta að leiðrétta það. En mér er ekki kunnugt um að svo hafi verið, ég minnist þess ekki. En nóg um það.

Nú er okkur sagt að hv. þingflokksformenn sitji á fundi og ræði framhald þingstarfa. Er til of mikils mælst af hæstv. forseta að hann geri stutt hlé á þessum þingfundi þangað til við vitum að hvaða niðurstöðu þingflokksformenn komast?