139. löggjafarþing — 139. fundur,  2. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[00:04]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Eins og ég var búinn að benda virðulegum forseta á tel ég ekki við hæfi að við ræðum þessi mikilvægu mál inn í nóttina á uppstigningardegi. Fyrir því eru ýmsar ástæður og eina af þeim hef ég tilgreint virðulegum forseta án þess að fá svar frá honum. Hún er sú að ég tel mjög mikilvægt að fólk hafi tækifæri til að fylgjast með þessum umræðum í beinni útsendingu og fylgjast með röksemdafærslu með og á móti þessu frumvarpi og að ríkisstjórnin og þeir sem stjórna þinginu sýni ekki þá vanvirðingu að láta ræða svona mikilvægt mál við þessar aðstæður.

Ég verð þess vegna að bíða með að flytja aðalræðu mína um málið en þetta er sú fyrsta og stóð til að hún yrði meginræðan, en þess í stað ætla ég að nota tímann til að velta vöngum og gera það sem ég hefði kannski gert í framhaldinu, fara yfir þær vangaveltur sem áttu að fylgja með aðalræðunni á fylgiskjölum og bíða með megininntakið þangað til aðstæður verða aðrar og betri. Þó mun ég að sjálfsögðu nefna nokkur meginatriði enda verður ekki hjá því komist.

Áður en ég hefst handa vil ég lýsa furðu minni á því hvernig allur málatilbúnaður varðandi þessi mál hefur verið, ekki bara að við skulum vera látin standa hér fram á nótt heldur að ríkisstjórnin komi með þessi gríðarlega mikilvægu mál tveimur mánuðum eftir að frestur til að skila inn málum rann út, þvingi þau í gegn og ætli að láta þingið, að því er virðist, afgreiða á nokkrum dögum grundvallarlög um eina af meginstoðum íslensks efnahagslífs og grundvallaratvinnugrein Íslendinga um aldir. En það er því miður eftir öðru sem frá þessari ríkisstjórn hefur komið.

Menn hafa í umræðum um sjávarútvegsmál mikið talað um sanngirni annars vegar og hagkvæmni hins vegar. Stjórnarliðar hafa frá því að núverandi ríkisstjórn tók við völdum lagt mikið upp úr því að gera þyrfti sjávarútvegskerfið sanngjarnara og jafnframt hafa menn látið fylgja að greinin væri mikilvæg en þyrfti að leggja lóð sín á vogarskálarnar við efnahagslega endurreisn landsins. Ég ætla þess vegna að fara í nokkrum orðum yfir þessi tvö atriði, sanngirni og hagkvæmni, út frá því frumvarpi sem er til umræðu.

Hvað sanngirni varðar og hagkvæmni verðum við að byrja á því að rifja aðeins upp söguna. Þó að ég sé ekkert mjög gamall man ég eftir því þegar flestir fréttatímar í sjónvarpinu byrjuðu á einni, tveimur eða þremur fréttum um vanda sjávarútvegsins. Fyrir vikið var ekkert sérstaklega skemmtilegt fyrir barn að horfa á fréttir, manni fannst þær allar vera sama neikvæða fréttin endurtekin á hverju kvöldi. Það voru alltaf svo mikil vandamál. Íslenskur sjávarútvegur var að því er virtist alltaf í krísu. Þetta var á árunum í kringum 1980. Á þeim tíma veiddu menn miklu meira en þeir hafa heimildir til að gera nú. Afli var sem sagt umtalsvert meiri en hann er í núverandi kerfi. Menn gátu í rauninni keypt sér bát; ódýran, ryðgaðan austur-þýskan dall þess vegna, og farið til veiða og veitt eins og þeir mögulega gátu.

Á þeim tíma voru reyndar enn þá neikvæðari fréttir af sjávarútveginum en fréttir af efnahagsvandanum sem honum tengdist og þeirri efnahagskrísu sem sjávarútvegsfyrirtækin voru í, en það voru fréttirnar af slysum á sjó sem voru margfalt tíðari en nú. Því miður var í allt of mörgum tilvikum um banaslys að ræða sem helgaðist að miklu leyti af því hvernig mönnum var beint í það far að fara út í nánast hvaða veðri sem er á skipum sem stundum voru ekki eins vel búin og nauðsynlegt hefði verið. Kerfið hvatti menn beinlínis til að taka mikla áhættu sem kostaði mörg mannslíf. Ég ætla ekki að dvelja við það í þessari aukaræðu heldur færa mig yfir að hagkvæmninni.

Hvað eftir annað voru nánast allir þeir sem tengdust sjávarútvegi í efnahagslegum erfiðleikum þrátt fyrir, eins og ég nefndi áðan, að geta veitt miklu meira en nóg. Alltaf var krafa um að ríkisvaldið gripi inn í og kæmi sjávarútveginum til aðstoðar. Það var stundum gert og reyndar býsna oft með því að fella gengi krónunnar með gríðarlegum kostnaði fyrir allt samfélagið þannig að stöðug efnahagsleg neyðarúrræði til að bregðast við vanda sjávarútvegsins kostuðu almenning í landinu gríðarlega mikla peninga.

Svo var tekið upp nýtt aflamarkskerfi sem hefur síðan verið í þróun. Núna fá menn að veiða miklu minna en áður. Þrátt fyrir það skilar sjávarútvegurinn umtalsverðum arði til þjóðarinnar allrar. Við skulum hafa það í huga að allar innfluttu vörur, tæki og tól og allt sem við framleiðum ekki sjálf þurfum við að flytja inn, stundum óþarfa og stundum lífsnauðsynlegar vörur fyrir sjúkrahús t.d., er að verulegu leyti flutt inn fyrir tekjurnar af útflutningi sjávarafurða. Sjávarútvegsfyrirtæki hafa að undanförnu skilað ágætisafkomu, greitt skatt til ríkisins, haldið fólki í vinnu og ekki bara þeim sem starfa beinlínis við veiðar. Sýnt hefur verið fram á að líklega vinni um 25–30 þúsund manns beint eða óbeint við störf sem tengjast sjávarútvegi. Um fjórðungur fólks á almennum vinnumarkaði á Íslandi, sem er semsé í einkageiranum, er fólk sem stendur að miklu leyti undir skatttekjum ríkisins. Sjávarútvegurinn sem var byrði á þjóðinni á meðan var veitt og flutt út miklu meira en nú er gert er farinn að skila samfélaginu verulegum arði.

Hvernig er það í samanburði við önnur lönd? Í mjög mörgum og hugsanlega flestum löndum í kringum okkur í Evrópu er sjávarútvegur ríkisstyrkt grein, þ.e. ríkið þarf að borga með sjávarútveginum. Hér hins vegar er hann ein af grunnstoðum velferðar í landinu. Það er afleiðing af því að menn hafa tekið upp hagkvæmari hætti við veiðar og vinnslu sjávarafurða. Ein af afleiðingunum er sú að menn framleiða miklu verðmætara hráefni. Það skiptir sköpum að fyrir fiskflök sem flutt er út fersk fáist sem flestar krónur, evrur, dollarar, pund eða annar gjaldmiðill. En lengi vel fluttum við því miður ekki út eins verðmætar afurðir og við hefðum getað gert. Það var ekkert nýtt. Ég man eftir að hafa lesið í einu af ritum Fjölnis, ég man ekki hvort það var fyrsta ritið sem kom út 1835 eða eitthvert af seinni ritum, þar sem Þjóðverji skrifaði grein til að leiðbeina Íslendingum því að hann hafði verið í viðskiptum á Íslandi og séð menn fara mjög illa með hráefni og vildi einfaldlega leiðbeina þeim þannig að þeir fengju meira í sinn hlut, fengju meira fyrir hráefnið. Smátt og smátt urðu framfarir hvað þetta varðaði sem áttu sinn þátt í að lífsgæði bötnuðu til muna á Íslandi. Ég vil sérstaklega nefna að í heimskreppunni miklu sem skall á Íslandi í kringum 1930 var gjaldeyrisskortur í landinu alvarlegt vandamál og ríkisstjórnin sem þá sat, ríkisstjórn framsóknarmanna, leigði skip frá útlöndum til að flytja út ísaðan fisk í fyrsta skipti. Með því fékkst miklu meira fyrir hráefnið sem átti sinn þátt í að skapa þann gjaldeyri sem við þurftum lífsnauðsynlega á að halda. Svo leið tíminn og framfarir urðu á þessu sviði en að lokum var orðin afturför vegna þess að kerfið hvatti ekki til að menn nýttu hráefnið eins vel og kostur var. Það var einn af þeim þáttum sem þurfti að huga að við hönnun hins nýja kerfis.

Þó að nýja kerfið hafi skilað miklum efnahagslegum ávinningi hafa að sjálfsögðu fylgt því gallar og það er eitt af því sem við þurfum og ættum að ræða þegar við ræðum sjávarútvegsmál. Hvernig getum við lagað gallana á þessu kerfi sem við fáum svo oft að heyra frá erlendum gestum, ekki hvað síst þeim sem koma að heimsækja okkur í tengslum við Evrópusambandsumsóknina, að sé besta sjávarútvegskerfi í heimi og menn líti á sem fyrirmynd vegna þess einfaldlega að þeir sjá niðurstöðuna á Íslandi í samanburði við það sem menn búa við í heimalöndum sínum? Ávinningurinn er því mikill en gallarnir vissulega til staðar líka. Við ættum að vera að ræða það hér hvernig við getum leyst úr þessum göllum. Framsóknarmenn hafa í sjávarútvegstillögum sínum leitast við að lagfæra gallana án þess þó að vega að hagkvæmninni. En í tillögum ríkisstjórnarinnar er því miður vegið svo gróflega að hagkvæmninni að menn hafa ekki einu sinni treyst sér til að láta svo mikið sem einn hagfræðing eða annars konar sérfræðing á þessu sviði reikna út efnahagsleg áhrif á frumvarpinu. Að hugsa sér að ríkisstjórnin skuli troða inn í þingið tveimur mánuðum eftir að frestur til að leggja fram frumvarp rann út, nokkrum dögum áður en þingstörfum á að ljúka frumvarpi um grundvallaratvinnugrein landsmanna án þess að hafa einu sinni látið reikna út efnahagslegar afleiðingar þess og það á tímum þegar við þurfum hvað mest á greinum eins og sjávarútvegi að halda til að draga vagninn út úr kreppunni.

Það er beinlínis sorglegt að ríkisstjórnin skuli haga sér með þessum hætti enda snýst þetta ekkert um staðreyndir. Þetta snýst um pólitíska leikþætti og við höfum fengið sannanir fyrir því aftur og aftur að ríkisstjórnin vill ekki niðurstöðu í þessu máli, hún vill ekki samstöðu, allra síst vill hún ná samstöðu, sérstaklega þó Samfylkingin. Það sannaðist heldur betur þegar hæstv. núverandi ráðherra Guðbjartur Hannesson fór fyrir svokallaðri sáttanefnd í sjávarútvegi, nefnd sem lagði í ótrúlega mikla vinnu við að ná víðtækri sátt og var í raun komin með víðtækari sátt um sjávarútveg en nokkur dæmi voru um í Íslandssögunni. Hvað gerist þá? Allt í einu sneru menn við. Allt í einu var allt sett í uppnám á ný. Hvers vegna var það? Vegna þess að þetta snýst ekki um staðreyndir. Þetta snýst ekki um að finna bestu leiðina. Þetta snýst eingöngu um pólitíska leiki og sérstaklega leiki Samfylkingarinnar og svo njóta þeir iðulega aðstoðar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem virðist líta á sig sem eins konar verktaka í þessari ríkisstjórn, að hlutverk þeirra sé fyrst og fremst það að framfylgja vilja Samfylkingarinnar en fá þó í skiptum að halda ráðherrastólum sínum. Svo tala menn um sanngirni í ofanálag. Hvaða sanngirni er í því að ætla að taka eins mikið og mögulegt er af þeim sem hafa skuldsett sig og jafnvel fjölskyldur sínar til að kaupa kvóta af hinum svokölluðu sægreifum, sem hæstv. forsætisráðherra kallar svo, til að geta komist inn í greinina og stundað sjávarútveg? (Gripið fram í.) Það á að taka kvótann af því fólki, og hverjir eiga að fá hann? Menn geta ekki tekið lán til að eignast kvóta því að það má ekki veðsetja kvótann. Hverjir eiga pening til að kaupa hann og fara inn í greinina, hafa hugsanlega einhverja þekkingu til að fara í sjávarútveg? Líklega nánast eingöngu hinir svokölluðu sægreifar sem voru búnir að selja sig út úr greininni. (Forseti hringir.) Stóra kaldhæðnin í þessu máli er að mennirnir sem hæstv. forsætisráðherra uppnefnir iðulega sægreifa er fólkið sem kom inn í greinina, tók lán og (Forseti hringir.) veðsetti sig til að komast inn í greinina. Hæstv. forsætisráðherra ætlar að færa þeim sem seldu sig út úr greininni kvótann aftur.